Innlent

Setti Kristinn ÞH með Íslandsmet í einni trossu?

Atli Ísleifsson skrifar
Kristinn er 15 brúttótonna bátur.
Kristinn er 15 brúttótonna bátur. Mynd/Aflafréttir/Helgi Ólafsson
Kristinn ÞH,15 brúttótonna bátur, dró um helgina inn 8,5 tonn af fiski í einni trossu undan ströndum Raufarhafnar sem líklegt er talið að sé Íslandsmet.

Í frétt Aflafrétta segir að Ríkharður Reynisson skipstjóri og Brynjar Þór Ríkharðsson hafi lagt þrjár trossur nærri Ásmundarstaðaeyju, sem er í um tíu mínútna siglingu frá Raufarhöfn. Þegar þeir hafi farið aftur út og dregið fyrstu trossuna hafi þeim strax orðið ljóst að eitthvað mikið var í henni því í fyrsta netið var eitt tonn af fiski.

Ríkharður Reynisson skipstjóri var að vonum ánægður með túrinn.Mynd/Aflafréttir/Brynjar Þór Ríkharðsson
Þegar búið var að draga trossuna alla kom í ljós að um 8,5 tonn af fiski var í henni. Í hinum tveimur trossunum voru svo annars vegar milli 4 og 5 tonn og hins vegar 7 tonn. Samtals gerðu þetta því um 20 tonn í aðeins um þrjátíu net.

Allur aflinn fór til vinnslu hjá GPG á Raufarhöfn og má áætla að aflaverðmætið eftir þennan eina dag sé um 4 til 5 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×