Innlent

Einhugur um ráðninguna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Almar Guðmundsson er nýr framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Almar Guðmundsson er nýr framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.
Almar Guðmundsson var ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins í gær. Hann tekur við starfinu af Kristrúnu Heimisdóttur sem hafði gegnt starfinu um tíu mánaða skeið. Almar er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School.

Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður SI, segir að ástæðan fyrir því að skipt var um framkvæmdastjóra sé sú að stjórnin hafi viljað sjá breytta ásýnd og breyta áherslum. Hún segir að einhugur hafi ríkt í stjórninni um þessar aðgerðir. „Stjórnin var alveg samstíga í þessum gjörðum,“ segir hún.

Guðrún segir að nýja framkvæmdastjórans bíði fullt af nýjum verkefnum. „Eins og allir sem fylgjast með vita er allt á fleygiferð í íslensku atvinnulífi og það sem ber helst að nefna eru breytingar á tollum og vörugjöldum. Við fögnum því auðvitað að fjármálaráðherra sé að vinna að tillögum í þeim málum. Þetta er baráttumál samtakanna til margra ára,“ segir hún.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×