Erlent

Pútín og Pórósjenkó ræðast við í Minsk

Rússar segja nú að hermenn þeirra sem úkraínskar hersveitir handsömuðu í gær innan landamæra Úkraínu hafi verið þar á ferð fyrir mistök.
Rússar segja nú að hermenn þeirra sem úkraínskar hersveitir handsömuðu í gær innan landamæra Úkraínu hafi verið þar á ferð fyrir mistök. Vísir/AP
Petro Pórósjenkó forseti Úkraínu hittir í dag kollega sinn Vladimír Pútín Rússlandsforseta á leiðtogafundi í Minsk í Hvíta-Rússlandi. Búist er við hitafundi en samskipti ríkjanna hafa verið afar slæm síðustu misserin og sérstaklega síðustu vikurnar.

Í gær greindu úkraínsk yfirvöld meðal annars frá því að hermenn stjórnarhersins hefðu tekið tíu rússneska hermenn höndum innan landamæranna í austurhluta Úkraínu. Rússar hafa þráfaldlega neitað því að þeir styðji við bakið á uppreisnarmönnum í austurhlutanum sem vilja halla sér meira að Rússlandi.

Rússar segja nú að hermenn þeirra sem úkraínskar hersveitir handsömuðu í gær innan landamæra Úkraínu hafi verið þar á ferð fyrir mistök. Tíu fallhlífahermenn Rússa eru nú í haldi Úkraínumanna og er þetta í fyrsta sinn sem rússneskir hermenn nást í Úkraínu en þarlend stjórnvöld hafa lengi haldið því fram að Rússar taki fullan þátt í hernaði aðskilnaðarsinna gegn stjórnarhernum. Málið er viðkvæmt sérstaklega í ljósi þess að forsetar Úkraínu og Rússlands hittast síðar í dag.

Ekki er þó búist við að viðræðurnar skili miklu enda er gjá á milli deiluaðila. Rússar krefjast þess að Úkraínumenn geri tafarlaust vopnahlé í austurhéruðunum en Úkraínumönnum gengur vel í baráttunni við uppreisnaröflin og því er talið afar ólíklegt að þeir fallist á það. Rúmlega tvö þúsund manns hafa fallið í átökum síðustu mánaða eftir að héröðin Luhansk og Dónetsk lýstu yfir sjálfstæði frá Úkraínu. Það gerðu aðskilnaðarsinnarnir í kjölfarið á ákvörðun Rússa að innlima Krímskaga.

Pórósjenkó Úkraínuforseti ákvað í gær að leysa upp þingið og boða hann til kosninga þann 26. októbert næstkomandi. Pórósjenkó sagði í fjölmiðlum ytra í gær að ennþá væru margir stuðningsmenn Viktor Janúkóvitsj, fyrrum forseta, inn á úkraínska þinginu og því ætti þjóðin að fá tækifæri til að velja sér nýja þingmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×