Innlent

Býður umboðsmanni Alþingis í heimsókn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis. Vísir/Stefán/GVA
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ítrekar að enginn af fjórum fundum hennar með Stefáni Eiríkssyni, fráfarandi lögreglustjóra í Reykjavík, hafi verið haldinn sérstaklega til að ræða rannsóknina á lekamálinu.

Í svari Hönnu Birnu við ítrekaðri fyrirspurn umboðsmanna greinir hún frá dagsetningum þeirra fjögurra funda sem hún átti með lögreglustjóra, þ.e. 18. mars, 3. maí, 16. júlí og 18. júlí. Á fyrri fundunum tveimur hafi einfaldlega verið um reglubundna fundi að ræða þar sem lögreglustjóri upplýsi ráðherra um hin ýmsu málefni. Á síðari tveimur fundunum hafi verið rætt um breytingar á högum Stefáns sem var í þann mund að hætta sem lögreglustjóri og taka við starfi forstjóra Samgöngustofu.

Hanna Birna segir engin símtöl milli hennar og lögreglustjóra, frá því rannsókn á lekamálinu hófst, hafa verið skráð þar sem ekki hafi verið rætt um mál sem formlega hafi verið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Þá hafi slík mál ekki verið til umræðu á þeim fundum sem hún átti með lögreglustjóra 18. mars og 3. maí. Ekkert er fullyrt í svörum Hönnu Birnu hvort rætt hafi verið um rannsókn ríkislögreglustjóra á lekamálinu.

Umboðsmaður óskaði eftir því að fá afhent afrit af heildarskrá innanríkisráðuneytisins um skráningu símtala og funda á tímabilinu 1. janúar til 1. júlí 2014 til glöggvunar. Segir ráðherra í svari sínu að umboðsmanni sé velkomið að kynna sér gögnin í ráðuneytinu að því marki sem hann telji þörf á. Þau vilji hún ekki senda enda ýmsar viðkvæmar persónuupplýsingar í fjölda mála.

Svar Hönnu Birnu í heild sinni má sjá á vef ráðuneytisins.


Tengdar fréttir

„Þetta er grafalvarlegt mál“

Formaður Samfylkingarinnar segir að það undirstriki mikilvægi lekamálsins að umboðsmaður vilji nánari skýringar.

Hanna Birna krafin um skýrari svör

Umboðsmaður Alþingis hefur ritað Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, og óskað eftir nánari upplýsingum og gögnum um samskipti innanríkisráðherra við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu.

Hanna Birna þarf að svara í dag

Í dag rennur út frestur innanríkisráðherra til að svara fyrirspurnum Umboðsmanns Alþingis í tengslum við lekamálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×