Innlent

Bryggjan í Eyjum þakin rusli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Frá Básaskersbryggju í morgun.
Frá Básaskersbryggju í morgun. Vísir/Óskar P. Friðriksson
Mikið rusl var við afgreiðslu Herjólfs á Básaskersbryggju á Heimaey í Vestmannaeyjum í morgun. Um er að ræða varning sem þjóðhátíðargestir skildu eftir sig er þeir héldu til síns heima með ferjunni að loknum hátíðarhöldum.

„Þetta er eðlilegt enda verið ofboðslegur fjöldi fólks á bryggjunni,“ segir Gunnlaugur Grettisson, rekstrarstjóri Herjólfs. Erfitt hafi verið að nota tæki við hreinsunarstörf á bryggjunni vegna fjöldans sem þar hefur verið undanfarinn rúman sólarhring.

Fjölmennt hefur verið á bryggjunni síðan aðfaranótt mánudags þegar stór hluti fólks fór að huga að brottför. Myndaðist löng röð við afgreiðsluna strax upp úr klukkan fjögur um nóttina. Treystu margir á að geta komist með ferjunni þrátt fyrir að vera ýmist miðalausir eða eiga miða í seinni ferðir.

Vísir/Óskar P. Friðriksson
„Þetta er alltaf svona. Fólk sem á bókað heim frá Eyjum á þriðjudegi eða miðvikudegi kemur niður eftir með væntingar,“ segir Gunnlaugur. Það séu alltaf einhverjir sem mæti ekki í bókaða ferð á mánudagsmorgni. Þá myndist smá svigrúm og hægt að bæta fólki á biðlista í bátinn.

„Það var reyndar mjög vel mætt í gær þannig að þetta gekk rólega framan af,“ segir Gunnlaugur. Nokkrir hausar á biðlista hafi farið með í fyrstu ferðir en svo hafi röðin farið að ganga betur er líða tók á gærdaginn. Einhverjir hafi líka snúið frá bryggjunni aftur í gistinguna enda röðin verið sérstaklega löng.

Svo fór að röð hinna miðalausu tók ekki enda fyrr en upp úr miðnætti í nótt er Herjólfur fór sína síðustu ferð. Herjólfur siglir svo sjö sinnum í Landeyjahöfn í dag og ættu þá síðustu gestir Þjóðhátíðar að skila sér til síns heima.

Þrátt fyrir að margir gestir hafi verið svekktir með að komast ekki um borð í Herjólf segir Gunnlaugur framkomu gesta hafa verið til fyrirmyndar.

„Við erum að flytja gríðarlegan fjölda fólks. Það er ofboðslega gaman að taka á móti þessum börnum og gaman hve mikinn skilning það sýnir starfsfólki mínu.“

Vísir/Óskar P. Friðriksson
Vísir/Óskar P. Friðriksson
Vísir/Óskar P. Friðriksson
Verið var að tína rusl á bryggjunni í morgun er ljósmyndara Vísis bar að garði.Vísir/Óskar P. Friðriksson

Tengdar fréttir

Fölskvalaus ánægja um helgina

Útihátíðir verslunarmannahelgarinnar fóru vel fram að mati lögreglu. Ekkert kynferðisbrot hefur verið kært og ekki urðu alvarleg umferðarslys.

Margir týndu símanum sínum á Þjóðhátíð

Margur þjóðhátíðargesturinn grætur nú farsímann sinn og hefur lögreglan í Eyjum, sem heldur utan um óskilamuni, fengið fjölmargar fyrirspurnir um síma. Sára fáir hafa hinsvegar skilað sér til lögreglunnar en nokkrir kunna þó enn að koma í leitirnar í hreinsunarstarfinu, sem hafið er af fullum krafti.

Aldrei fleiri í brekkunni á þjóðhátíð

Birgir Guðjónsson, formaður þjóðhátíðarnefndar þakkar góðu skipulagi, hagstæðu veðri og einstökum náttúruaðstæðum í Herjólfsdal hve vel þjóðhátíð fór fram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×