Innlent

Fölskvalaus ánægja um helgina

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Að venju vöktu hljómsveitirnar á Þjóðhátíð í Eyjum mikla lukku.fréttablaðið/Óskar
Að venju vöktu hljómsveitirnar á Þjóðhátíð í Eyjum mikla lukku.fréttablaðið/Óskar
Útihátíðir verslunarmannahelgarinnar fóru vel fram að mati lögreglu. Ekkert kynferðisbrot hefur verið kært og ekki urðu alvarleg umferðarslys.

Ekki byrjaði helgin þó vel fyrir norðan því lögreglunni á Akureyri barst tilkynning um líkamsárás aðfaranótt föstudags en þá hafði árásarmaðurinn skellt fórnarlambinu niður og sparkað í það. En fall er faraheill og að þessu ódæði undanteknu bar ekkert alvarlegt mál á góma lögreglunnar á Akureyri, frekar en í Vestmannaeyjum þar sem um sextán þúsund manns voru samankomnir í Herjólfsdal. Fimm líkamsárásir voru kærðar í Eyjum en í engum þeirra var um alvarleg meiðsl að ræða.

Vissulega var nokkur erill hjá lögreglu og yfirvaldið í Eyjum gerði um 50 neysluskammta af fíkniefnum upptæka. Voru þetta kannabisefni, amfetamín, kókaín og e-töflur. Eins var erillinn nokkur aðfaranótt laugardags fyrir norðan.

Lögreglan á Ísafirði er í skýjunum með sína gesti. Þar var viðbúnaður mikill og fíkniefnahundurinn Tindur með nefið í hvers manns koppi en fann þó ekkert sem honum þótti bitastætt. Einn gisti fangageymslu yfir helgina á Ísafirði en sá var friðsæll og hafði bara tapað áttum.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, segir of snemmt að fagna vel heppnaðri helgi. Í fyrra hafi tíu nauðganir átt sér stað á útihátíðum. Ekkert fórnarlambanna hafði þó leitað sér aðstoðar áður en verslunarmannahelgin var öll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×