Fótbolti

Þjóðverjar skemmdu heimsmeistarabikarinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Fagnað með bikarinn
Fagnað með bikarinn vísir/getty
Wolfgang Niersbach forseti þýska knattspyrnusambandsins hefur viðurkennt að heimsmeistarabikarinn sem Þjóðverjar fengu með sér frá Brasilíu hafi skemmst í fagnaðarlátunum.

Þýskaland varð heimsmeistari í fjórða sinn þegar liðið lagði Argentínu í úrslitaleiknum á HM 1-0 í framlengdum leik 13. júlí.

Í vikunni á eftir fögnuðu Þjóðverjar innilega í Berlin með heimsmeistarabikarinn meðferðis. Skemmtunin fór aðeins úr böndunum því bikarinn skemmdist í fagnaðarlátunum.

„Á einum tímapunkti flísaðist smá bútur úr heimsmeistarabikarnum,“ sagði Niersbach í þýskum fjölmiðlum.

„Hafið ekki áhyggjur. Við eigum sérfræðinga sem geta lagað þetta.

„Við rannsökuðum ítarlega hver skemmdi bikarinn en rannsóknin skilaði engum árangri.“

Sem betur fer fyrir Þýskaland fékk liðið einungis að fara með eftirlíkingu af bikarnum sem liðið fékk afhentan á Maracana vellinum en hann er metinn á yfir 10 milljónir evra.

Eftir að Jules Rimet bikarnum var stolið 1983 frá Brasilíu hefur Fifa ekki treyst heimsmeisturunum fyrir heimsmeistarabikarnum. Brasilía vann Jules Rimet bikarinn til eignar árið 1970.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×