Erlent

Óraunhæft að senda vopnað herlið til Úkraínu

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. vísir/ap
Mark Rutte forsætisráðherra Hollands telur óraunhæft að fá alþjóðlegt herlið til að tryggja vettvanginn við mark malasísku vélarinnar sem fórst hinn sautjánda júlí síðastliðinn og hafa yfirvöld í Hollandi því ákveðið að fresta því að senda sérfræðinga á svæðið.

Rutte sagði átök aðskilnaðarsinna og úkraínskra hermanna hindra aðgang að braki vélarinnar og að allra leiða væri leitað til að tryggja vettvanginn. Farið væri yfir vettvanginn daglega og allir möguleikar skoðaðir.

Talsmenn eftirlitsstofnunar ÖSE segja að ómögulegt sé að tryggja öryggi sérfræðinganna þar sem átök aðskilnaðarsinna og úkraínskra hermanna fara harðnandi. Rannsakendur hafa átt í miklum erfiðleikum með að nálgast brakið en aðskilnaðarsinnar ráða lögum og lofum á svæðinu. Svo virðist sem að samkomulag aðskilnaðarsinna og yfirvalda í Úkraínu um að auðvelda rannsókn á harmleiknum hafi skilað litlum árangri.

Stjórn Barack Obama Bandaríkjaforseta fullyrðir að aðskilnaðarsinnar hafi skotið flugvélina niður en mögulegt sé að um mistök hafi verið að ræða. Vladimír Pútín, forseti Rússlands, þvertekur fyrir þetta og segir að úkraínski herinn hafi verið að verki.

Alls létust 298 manns þegar farþegaflugvél Malaysia airlines var grandað fyrir tíu dögum síðan. Þar af voru 193 hollenskir ríkisborgarar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×