Innlent

Íslenskir karlmenn langlífastir í Evrópu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Auðunn
2.154 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi létust í fyrra, 1.91 karl og 1.063 kona. Samkvæmt frétt á vef Hagstofu var dánartíðni 6,7 á hverja þúsund og hækkaði hún frá árinu 2012.

Ungbarnadauði hér á landi var 1,8 barn af hverjum þúsund lifandi fæddum í fyrra. Árið 2012 var ungbarnadauði 1,1 börn af hverju þúsund. Þá gátu nýfæddir drengir vænst þess að ná að meðaltali 80,8 ára aldri en stúlkur 83,7 árum.

Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði lægri en á Íslandi árið 2012, þegar hann var 1,1. Næstir komu Slóvenar með 1,6 af þúsund lifandi fæddum. Annarsstaðar á Norðurlöndum var ungbarnadauði á bilinu 2,4 til 3,4. Heildarmeðaltal var Evrópusambandsríkjanna ásamt EES þjóðunum var 3,8 en ungbarnadauði var tíðastur í Tyrklandi eða 11,6.

Þá voru íslenskir karlmenn langlífastir Evrópumanna eða 81,6 ár. Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd.

Í frétt Hagstofu segir að lengi vel hafi lífslíkur íslenskra kvenna verið hæstar í heiminum en þær hafa dregist nokkuð afturúr stallsystrum sínum í Evrópu á þessari öld. Ástæða þess er sögð vera hraðari aukning ævilengdar í nokkrum Evrópulöndum. Árið 2012 var meðalævilengd kvenna á Íslandi 84,3 ár. Sátu þær í sjötta sæti meðal Evrópuþjóða.

Elstar evrópska kvenna verða konur á Spáni, 85,5 ár, en meðalævilengd kvenna er styst í Makedóníu, 76,9 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×