Innlent

Líkamsárásin í Grundarfirði: Maðurinn enn í öndunarvél

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Frá höfninni í Grundarfirði þar sem árásin átti sér stað.
Frá höfninni í Grundarfirði þar sem árásin átti sér stað. VÍSIR/VILHELM
Maðurinn sem ráðist var á í Grundarfirði í nótt var heimamaður að sögn þeirra sem urðu vitni að árásinni.

Tveir menn veittust að honum um klukkan 02:30 en þeir voru skipverjar á togaranum Baldvini NC 100 sem var við bryggju í Grundarfirði í nótt. Skipið er í eigu dótturfélags Samherja, Deutsche Fischfang Union.

Mennirnir þrír höfðu setið að sumbli á skemmtistað í bænum til klukkan 01:00 en samkvæmt starfsmanni staðarins var létt yfir mönnunum og áttu þeir í engum deilum meðan á dvöl þeirra stóð.

Það var svo á þriðja tímanum í morgun sem skipverjarnir veittust að manninum við hafnarsvæðið í bænum með þeim afleiðingum að hann hlaut alvarlega höfuðáverka. Hlúð var að manninum á heilsugæslustöðinni í Grundarfirði en ástand mannsins var talið svo alvarlegt að kallað var eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar sem flutti hann á slysadeild Landspítalans.

Þyrlan lenti þar rétt fyrir klukkan fimm í morgun og liggur maðurinn nú á gjörgæsludeild, meðvitundarlaus og þungt haldinn, að sögn vakthafandi læknis þar.

Lögreglan hefur í morgun kortlagt vettvang árásarinnar og yfirfarið myndbandsupptökur úr öryggismyndavélum á hafnarsvæðinu.

Árásarmennirnir tveir eru enn í haldi lögreglunnar en Baldvin hélt úr höfn um klukkan átta í morgun. Annar mannanna er íslenskur. Yfirheyrslur yfir mönnunum fara að hefjast en þeir hafa fram til þessa verið að sofa úr sér áfengisvímuna. 

Uppfært kl. 13:20

Samkvæmt vakthafandi lækni er maðurinn í lífshættu og er honum enn haldið sofandi í öndunarvél.

Uppfært 14:15

Árásarmennirnir hafa nú sofið úr sér og er verið að flytja þá á Akranes í skýrslutökur. Lögreglan telur að mennirnir á Baldvini NC 100 hafi verið við löndun þegar skipverjarnir réðust á manninn og mun hún því vera í sambandi við áhöfn togarans símleiðis því Baldvinn er nú kominn út á rúmsjó sem fyrr segir.

Uppfært 16:20

Maðurinn gekkst undir aðgerð síðdegis. Honum er áfram haldið sofandi í öndunarvél.

Lögreglan reynir nú að púsla saman atburðarásinni frá því að skemmtistaðurinn lokaði klukkan eitt og þangað til að árásin átti sér stað á þriðja tímanum í nótt. Hún leitar frekari vitna að árásinni og bendir þeim á að hægt er að ná sambandi við hana í síma 430-4141.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×