Erlent

Flugvélar sneiða hjá Austur-Úkraínu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hér má sjá hvernig flugvélar forðast það að fljúga yfir austurhluta landsins.
Hér má sjá hvernig flugvélar forðast það að fljúga yfir austurhluta landsins.
Uppfært 17:20

Búið er að loka fyrir alla flugumferð yfir Austur-Úkraínu.

Flugmenn sem fyrirhuguðu að fljúga yfir landssvæðið þar sem flugvél Malaysia Airlines fórst fyrir skömmu hafa fengið fyrirmæli um að fljúga í mestu mögulegri hæð. Er það gert til að varna því að vélar þeirra hljóti sömu örlög og flug MH17.

Buk-flaugarnar sem taldar eru hafa grandað flugvélinni hafa takmarkaða drægni og ættu því ekki að geta hæft vélar í mikilli hæð.

Fjöldinn allur af flugvélum hafa einnig breytt um stefnu á síðustu mínútum til að komast hjá því að fljúga yfir austurhluta Úkraínu en þar geisa enn mikil átök milli aðskilnaðarsinna og úkraínska stjórnarhersins.

Að sögn Reuters-fréttastofunnar hafa Lufthansa og Air France ákveðið að sneiða alfarið hjá því að fljúga yfir átakasvæðið í Austur-Úkraínu. Hið rússneska Transaero tilkynnti skömmu síðar að það myndi gera slíkt hið sama.

MH17 var á leið frá Amsterdam til Kúala Lúmpúr og að sögn flugöryggissérfræðings á vegum CNN eru ferðir á milli borganna tveggja tíðar. Flugfélög sem fara þar á milli þurfa að hafa sérstakan vara á enda er hluti leiðarinnar sem fyrr segir yfir átakasvæðum.

Ekki má mikið út af bregða svo að ekki fari illa og þurfa flugmenn því að vera í miklum samskiptum við flugmálayfirvöld þegar flogið er yfir austurhluta Úkraínu.

Vél Malaysia Airlines var 17 ára gömul og flaug sína fyrstu ferð í júlí 1997.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×