Erlent

Innrás Ísraelshers hafin á Gaza

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/AFP
Ísraelsmenn hafa hafið innrás á Gaza-ströndina og sent her þeirra fram af landi, sjó og úr lofti. Fimm klukkustunda vopnahlé var gert í dag, en um leið og það rann út brutust út bardagar milli Ísraelshers og Hamas.

Á vef BBC kemur fram að Ísraelsher segi innrásina vera svar við ítrekuðum flugskeytaárásum Hamas á Ísrael síðustu 10 daga og hún sé gerð til að tryggja öryggi Ísraelsmanna.

Ísraelskar herþotur hafa í kvöld varpað sprengjum á Gaza ströndina og skriðdrekar hafa verið sendir inn fyrir landamærin inn á norðvesturhluta Gaza-strandarinnar. Eitt helsta markmið innrásarinnar er að eyðileggja jarðgöng sem liðsmenn Hamas hafa notað til að komast inn í Ísrael.

Frá 8. júlí hefur Ísraelshers framkvæmt um 1960 árásir á Gaza, og Hamas-liðar hafa skotið um 1380 flugskeytum á Ísrael, sem flestum hefur verið grandað af loftvarnakerfi Ísraelsmanna. Sameinuðu þjóðirnar telja að um 1370 heimili á Gaza-ströndinni hafi verið eyðilögð og hafi um 18000 manns misst heimili sitt af þeim sökum.

Síðasta stóra innrás Ísraelsmanna á Gaza var beggja vegna áramótanna 2008 og 2009. Á þriggja vikna tímabili er talið að um 1400 Palestínumenn hafi látið lífið og 13 Ísraelar að því er Reuters greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×