Innlent

„Eflum opinbera menntakerfið og tölum það ekki niður“

Samúel Karl Ólason skrifar
Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður kennarasambands Íslands.
Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður kennarasambands Íslands. Vísir/Stefán
„Niðurstöður úr PISA og öðrum alþjóðlegum rannsóknum geta átt þátt í því að beina athygli okkar að sterkum hliðum íslensks skólakerfis og að ýmsum vanda. Þær geta verið tilefni til að spyrja vel ígrundaðra spurninga um hvernig við getum gert góðan grunnskóla enn betri. En PISA hefur margar takmarkanir.“

Þetta skrifar Aðalheiður Steingrímsdóttir, varaformaður Kennarasambands Íslands í grein sem birtist á Vísi í gærkvöldi undir heitinu PISA: Gagnlegar upplýsingar en ekki endanlegur dómur um gæði.

Í greininni segir hún að í niðurstöðum úr einstökum skólum komi fram ólík þátttaka og mikil óvissa felist í því að nota niðurstöðurnar um hvern og einn.

„Félagslegt umhverfi skóla er mismunandi og bakgrunnur nemenda. Jöfnuður milli grunnskóla hér á landi er samt sem betur fer með allra mesta móti af öllum 65 þátttökulöndunum en á hinn bóginn er getustig nemenda í einstökum skólum hér á landi eitt það fjölbreytilegasta samanborið við hin löndin. Allir vita að skólar hafa aldrei haft raunverulega stöðu til að starfa samkvæmt stefnu um skóla án aðgreiningar og hefur niðurskurður undanfarinna ára á fjármunum til skólastarfs ekki gert hlutina auðveldari,“ segir Aðalheiður.

Hún segir að Íslendingar þurfi að vera mjög vakandi fyrir því hvernig PISA niðurstöður séu notaðar. Ef eingöngu sé einblýnt á hvar lönd og skólar raðist niður á lista missi fólk sjónar af almennu þroska- og menntunarhlutverki skólans.

„Í sumum löndum hefur slök útkoma í PISA verið misnotuð pólitískt til að færa rök fyrir aðgerðum í menntamálum sem rannsóknarniðurstöður fjalla ekkert um.

PISA gefur gefið okkur gagnlegar upplýsingar en er alls ekki einhver endanlegur dómur um gæði skólastarfsins. Ef við horfum fram hjá almennu þroska- og menntunarhlutverki skólans þegar við leggjum mat á hlutina þá erum við á villigötum,“ skrifar Aðalheiður.

Hún segir rannsóknir á menntakerfum landa sýna að nokkur einkenni séu sameiginleg þeim löndum sem OECD telur hafa tekist vel upp í menntamálum sínum.

Þau séu opinber skóli sem sé fyrir alla, skólastjórnendur og kennarar njóti trausts og búi við sjálfstæði í starfi, góða kennaralaun, fagmenntun kennara sé á mastersstigi háskóla og starfsþróun þeirra sé samofin kennarastarfinu, góð samskipti séu á milli nemenda og kennara og hátt hlutfall barna sé í leikskólum.

„Margt getum við lært af reynslu þessara landa, eflum opinbera menntakerfið og tölum það ekki niður.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×