Innlent

Sjónvörp á kömrunum í Brasilíu

Ingvar Haraldsson skrifar
Hjörtur Methúsalemsson, Egill Gautur Steingrímsson, Hilmar Benedikt Hilmarsson og Einar Þórmundsson.
Hjörtur Methúsalemsson, Egill Gautur Steingrímsson, Hilmar Benedikt Hilmarsson og Einar Þórmundsson.
„Þetta er búið að vera geðveikt, alveg ólýsanlegt“ segir Einar Þórmundsson, sem er nú staddur í Ríó De Janeiro í Brasilíu þar sem hann fylgist með heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu ásamt þremur vinum sínum.

„Það eru allir að horfa á HM, fólk er með túbusjónvarp úti á götu til að fylgjast með mótinu. Þeir sem selja inn á kamrana eru með pínulítið sjónvarp til að geta fylgst með. Leigubílstjórar eru líka með sjónvarp í bílnum svo þeir geti horft á leikina á meðan þeir keyra“ segir Einar heillaður af mannlífinu.

Strákarnir fylgdust með viðureign Belgíu og Rússlands.
Sáu fimm slagsmál í stúkunni

„Þegar Brasilíumenn spila er öllu lokað og haldið partý. Við horfðum á leik Chile og Brasilíu á hostelinu með fullt af Brössum.“ Það leit ekki vel út lengi vel fyrir Brasilíumenn, leikurinn fór í framlengingu og að lokum vítaspyrnukeppni. Einar segir heimamenn hafa farið á taugum.

„Þegar Brasilíumenn komust svo áfram trylltist allt, það hlupu allir út á götu til að fagna. Við þurftum sjálfir að hlaupa í gegnum mannfögnuðinn til að ná lest til að komast á leik Úrúgvæ og Kólumbíu.“

Leikurinn fór fram á hinum sögufræga Maracana-leikvangi.

„Þetta var besti leikurinn sem við fórum  á. Við sáum fimm sinnum slagsmál í stúkunni nálægt okkur á meðan leiknum stóð. Það var þvílíkur hiti í mönnum.“

Einar Þórmundsson við húsbílinn sem strákarnir leigðu.
Algjör steinsteypufrumskógur

Ferðalag strákanna hófst á þrettán daga ferðalagi á húsbíl um Bandaríkin.

„Við fórum til Los Angeles, Las Vegas og San Francisco, sáum meðal annars UFC bardaga í Las Vegas.“ Þaðan var ferðinni heitið til Sao Paulo í Brasilíu sem Einar segir vera furðulega borg. „Við vorum í þrjá daga í Sao Paulo. Þetta er algjör steinsteypufrumskógur.“

Einari líst mun betur á Rio De Janeiro.

„Borgin er hrikalega falleg og það er einfalt að læra á lestarkerfið og svoleiðis. Okkur hefur ekki fundist við vera í neinni hættu hérna. Það var búið að vara okkur við að við gætum lent í vandræðum en það hefur ekki verið. Það eru reyndar lögreglumenn út um allt út hérna út af HM.“

Hinir fjóru fræknu við Miklagljúfur (e. Grand Canyon)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×