Innlent

Áframhaldandi töf gæti haft skelfileg áhrif

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Gjaldeyrishöft voru sett á 27. nóvember 2008 en þau áttu að vera tímabundin aðgerð. Nú, fimm og hálfu ári síðar, liggur ekki enn fyrir nákvæm áætlun um það hvernig á að afnema þau en fjármálaráðherra hefur sagt að hann vonist til að stór skref verði stigin í afnámi hafta á þessu ári.

Fréttastofa Stöðvar 2 greindi frá því í síðasta mánuði að fyrirhugað væri að ráða erlend ráðgjafafyrirtæki til að koma að vinnu við afnám gjaldeyrishafta. Þær viðræður eru nú langt komnar og er áætlað að ganga frá samningum við þessi fyrirtæki um miðjan júlímánuð. 

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs hjá Samtökum atvinnulífsins, segir tækifæri við afnám gjaldeyrishafta vera til staðar og þau þurfi stjórnvöld að grípa. En hvaða áhrif hefði áframhaldandi biðstaða?

„Það gæti haft skelfileg áhrif að okkar mati. Við erum á þeim tímapunkti núna að það er tímabært að taka skref við afnám hafta. Samsetning hagvaxtar er að breytast, hann verður áfram drifinn af innlendri neyslu og við óttumst það að áður en langt um líður, verðum við komin í ofhitnun innan hafta. Að okkar mati er líka áhætta að taka engin skref og tækifæri til að stíga einhver skref eru einmitt núna” segir Ásdís.



Viðskiptaráð Íslands birti nýverið skýrslu um afnám gjaldeyrishafta en þar kemur fram að kröfuhafar föllnu bankanna verði af um 260 milljörðum króna fyrir hvert ár af töfum á útgreiðslu eigna þrotabúanna. Ásdís segir kröfuhafa ekki eina um tapið.

„Þannig að það eru ekki eingöngu kröfuhafar sem verða fyrir kostnaði, heldur auðvitað einnig íslensk efnahagslíf og ég tel að það sé mjög mikilvægt núna að við brjótumst út úr þessum vítahring sem við erum í innan hafta,” segir Ásdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×