Erlent

„Hef neytt allra tegunda eiturlyfja sem ykkur dettur í hug“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/AFP
Rob Ford, hinn frægi borgarstjóri Toronto í Kanada, segist hafa neytt allra eiturlyfja sem hægt er að finna. Að heróíni undanskildu, sem Ford þvertekur fyrir að hafa neytt. Hann kennir eiturlyfjunum um rasísk ummæli sín og hommahatur.

„Nefndu það og ég hef misnotað það,“ sagði borgarstjórinn í viðtali við CBC sjónvarpsstöðina í Kanada.

AP fréttaveitan segir Ford hafa snúið aftur til vinnu í vikunni, eftir tveggja mánaða meðferð við áfengis- og eiturlyfjafíkn. Hann viðurkenndi að hafa neytt kókaíns, maríjúana og sveppa, en þvertók fyrir að hafa notað heróín. Þá sagðist hann hafa reykt krakk, en sagðist ekki vera háður því.

Ford vildi ekkert segja um hvort hann myndi segja af sér ef hann fellur.

„Ég tek einn dag í einu. Ég drakk ekki í gær og er ekkert búinn að drekka í dag.“

Hann ætlar ekki að segja af sér vegna fíknar sinnar. „Ég elska þetta starf og að vera virkur er það besta fyrir mig.“

Hann tilkynnti að hann væri á leið í meðferð í apríl eftir að myndband var birt á netinu af honum reykja krakk. Einnig hafa myndbönd verið birt af honum undir áhrifum á almannafæri. Ummæli hans á þeim myndböndum einkenndust af rasisma og hommahatri.

Ford kenndi eiturlyfjunum um þessi ummæli.

„Ég get ekki einu sinni ímyndað mér að nota þessi orð.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×