Innlent

Mörg hundruð Íslendingar sleikja sólina núna

Stefán Árni Pálsson skrifar
Margrét Helgadóttir, framkvæmdarstjóri Úrvals Útsýnar.
Margrét Helgadóttir, framkvæmdarstjóri Úrvals Útsýnar. visir/getty
„Það hefur verið mikið fjör í sölunni undanfarna daga,“ segir Margrét Helgadóttir, framkvæmdarstjóri Úrvals Útsýnar, í þættinum Í bítið á Bylgjunni í morgun.

Síðustu daga hefur borið á slæmu veðri hér á landi og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.

„Það bókuðu margir snemma í ár því fólk ætlaði ekki að missa af ferðinni sinni eins og margir upplifðu síðasta sumar.“

Margrét segir að nokkur hundruð manns séu núna að sleikja sólina á meðan við hin horfum út um gluggann á rigninguna.

„Það var sannarlega eftirspurn eftir sólarlandaferðum síðasta sumar og því fjölguðum við ferðum í ár. Við finnum vel fyrir því að fólk ætlar sér að komast út í sumar í stað þess að eyða fríinu sínu innandyra.“

Margrét segir að ferðir til Tenerife séu þær vinsælustu sem og ferðir til Almería á Spáni.

„Þetta er fjórða sumarið í röð sem við bjóðum upp á ferðir til Almería og það virðist vera vinsæll áfangastaður. Við finnum einnig fyrir aukinni sölu þegar veðrið er gott hér á landi, því þá virðist fólk vilja meira.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×