Innlent

Fyrsta rafræna manntalið á Íslandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Vísir/Auðunn
Tæplega 35 prósent einstaklinga 15 ára og eldri hafa lokið prófi á framhaldsskólastigi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrsta rafræna manntalinu sem Hagstofa Íslands hefur tekið.

Manntalið var tekið í árslok 2011 og er sambærilegt við manntal sem tekið hefur verið í öllum löndum Evrópu. Með manntalinu fást upplýsingar um einstaklinga og húsnæði sem þjónar því markmiði að veita tölulegar upplýsingar um lýðfræðilegar, félagslegar, hagrænar og svæðabundnar aðstæður í einu gagnasafni.

Með manntalinu 31. desember 2011 fást upplýsingar sem ekki hafa legið fyrir áður um

fjölskyldur, heimili og húsnæði þeirra og umráðarétt yfir því. Þá fást ítarlegar upplýsingar um menntunarstig þjóðarinnar ásamt gögnum um atvinnuþátttöku sem hægt verður að sundurliða eftir svæðum og mörgum öðrum þáttum sem ekki hefur verið gerlegt þegar upplýsingarnar eru byggðar á úrtaksrannsóknum.

Þessar upplýsingar hafa ekki legið fyrir síðan manntöl voru gerð reglulega í

upphafi hvers áratugar en síðast voru birtar niðurstöður manntals ársins 1960.

Útskrift úr Háskóla Íslands.Vísir/Vilhelm
Af helstu niðurstöðum má nefna að mannfjöldinn 31. desember 2011 var 315.556 manns, sem skiptust í 118.617 einkaheimili, en auk þess voru 8.158 einstaklingar á stofnunum eða heimilislausir. Mannfjöldinn skiptist ennfremur í 81.380 fjölskyldur auk 60.454 karla og kvenna sem stóðu utan við fjölskyldukjarna.

Alls voru taldar 117.939 hefðbundnar íbúðir sem voru í notkun, en auk þess 8.273 slíkar íbúðir sem ekki voru nýttar til búsetu, sem jafngildir 6,6% af heildarfjölda hefðbundins íbúðarhúsnæðis.

Af 249.841 einstaklingi 15 ára og eldri hafa 60.922 eða 24,4% lokið háskólaprófi sem hæstu menntun, en 86.087 (34,5%) lokið námi á framhaldsskólastigi. Alls voru 166.184 við störf, 85.961 karl og 80.223 konur, þar af þrír fjórðu hlutar við þjónustugreinar af ýmsu tagi.

Gerð manntalsins var styrkt af Evrópusambandinu að því er kemur fram í skýrslunni. Í Hagtíðindum er gerð grein fyrir helstu niðurstöðum manntalsins en frekari sundurliðanir og nánari umfjöllun verður birt á næstu mánuðum og misserum.

Hagtíðindi (PDF) má lesa hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×