Innlent

2.466 vinnudagar í sjálfboðavinnu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Grábrókargígar 2012.
Grábrókargígar 2012. Mynd: Lee Dunn
Árið 2013 unnu sjálfboðaliðar 2.466 vinnudaga hjá Umhverfisstofnun (493,2 vinnuvikur) á 35 friðlýstum svæðum um allt land, frá Hornströndum til Lónsöræfa, frá Reykjanesi til Ásbyrgis, frá Snæfellsnesi til Kverkfjalla.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun en stofnunin hefur rekið verkefni sjálfboðaliðastarfs í náttúruvernd frá upphafi stofnunarinnar.

Sjálfboðaliðar Umhverfisstofnunar sinna fjölbreyttum verkefnum yfir löng tímabil. Verkefnið er að hluta í samstarfi við sjálfboðaliðasamtök og íslenska sem erlenda framhaldsskóla.

Ásbyrgi 2012Mynd: Anna Lefering
173 manns komu sérstaklega til landsins og unnu mikilvægt starf í þágu náttúrunnar. Fram til ársins 2012 hafa flestir sjálfboðaliða komið erlendis frá en árið 2013 voru mikil tímamót, þegar samstarf við íslenska framhaldsskóla hófst og hlutfall íslenskra sjálfboðaliða fór þar með upp í 21%, en það var 1% árið áður. 

Í mars sl. tóku kennarar frá sjö framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu þátt í samráðsfundi um að taka Reykjaveg (120 km gönguleið) að sér, með aðstoð Sjálfboðaliða Umhverfisstofnunar. 

Sjálfboðaliðar Umverfisstofnunar vinna á náttúruverndarsvæðum. Þeir aðstoða landverði Umhverfisstofnunar og einnig landverði Vatnajökulsþjóðgarðs, skógarverði Skógræktar Ríkisins og landeigendur.

Eldgjá 2012mynd-Anna Lefering
Þeir búa yfir mikilli reynslu, bæði í þjálfun liðsstjóra og í gerð og lagfæringu göngustíga. Þeir eru sérhæfðir í ýmsum verkefnum sem snúa að endurheimt landslags, votlendi og líffræðilegri fjölbreytni. 

Árið 2013 unnu sjálfboðaliðar í fyrsta skipti í Þjórsárverum, Geitlandi og á Eldfelli. Á Hornströndum hafa þeir í fyrsta skipti tekið að sér það verkefni að endurhlaða gamlar vörður og 70 vörður hafa verið reistar í upprunalegri mynd undir umsjón sérfræðings. 

Svæði á rauðum lista hafa verið einnig fengið sérstaka athygli, t.d. Mývatn og Laugarás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×