Innlent

Biðlar til þjófa að skila sér sérhönnuðu bardagasverði

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Benedikt er hér í gervi munks. Til hægri er svo sverðið sem var stolið.
Benedikt er hér í gervi munks. Til hægri er svo sverðið sem var stolið.
„Ég biðla bara til þeirra sem stálu sverðinu að skila því. Þetta er sérhannað bardagasverð. Það er rúnað og er í raun ekki hægt að nota sem skrautmun,“ segir Benedikt Kristjánsson. Brotist var inn í bílinn hans og sverði, víkingabelti og poka af verkfærum stolið.

Benedikt er í hóp sem kallar sig Rimmugýgur. Hópurinn sér um ýmiskonar víkingaskemmtanir og sýna þaulæfð bardagaatriði. Sverðið var hluti af búningi Benedikts. Hann fékk sverðið að gjöf frá fjölskyldu sinni og segir að nýtt sverð kosti um fimmtíu til sextíu þúsund krónur. Víkingabeltið sem var stolið af honum var sérhannað.

Skellti mér í Nóatún og keypti mér tælenskan mat

Sverðinu var stolið úr bíl Benedikts á meðan hann skellti sér í Nóatún í Hamraborg og sótti sér mat á tælenska veitingastaðnum Thaimatur, sem einnig er í Hamraborg.

„Ég var kannski svona þrjár mínútur í Nóatúni og svo stökk ég inn og sótt tælenska matinn. Ég keyrði heim og þá fattaði ég að sverðið var horfið,“ útskýrir hann og segir bílinn hafa verið ólæstan.

Farið víða

Benedikt hefur farið með sverðið víða um Evrópu að eigin sögn. „Já, ég var til dæmis að kom frá Danmörku fyrir stuttu. Þetta sverð var mér afar kært, þetta var falleg gjöf frá fjölskyldunni.“

Sverðið er rúnað – sem sagt ekki beitt. „Þetta er sérhannað til þess að nota í svona bardagasýningum. Við æfum tvisvar í viku og undirbúum okkur vel. En sverðin þurfa samt að vera rúnuð, því það er sárt að fá beitt eggvopn í sig,“ segir Benedikt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×