Innlent

Fjallabaksleið syðri í dag, Sprengisandur á morgun

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fjallabaksleið syðri var opnuð í dag og stefnt er að því að opna veginn um Sprengisand annaðkvöld. Þá er verið að hefla og lagfæra vöðin á leiðinni í Þórsmörk.

Það þykja jafnan tímamót þegar vegurinn um Sprengisand opnast enda liggur hann um miðhálendið og er hæsti hálendisvegur Íslands. Veghefill hefur frá því í gær verið að lagfæra veginn. Þar er lítill snjór en mikil bleyta, að sögn Gunnars Bogasonar, yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni á Húsavík, sem skoðaði Sprengisand í dag.

Hann segir mikinn snjó hafa tekið upp síðustu daga, þannig hafi metershár skafl á veginum horfið á einni viku. Þá taki bleytuna hratt úr norðan jökla og kvaðst Gunnar í dag bjartsýnn um að hægt verði að opna Sprengisand annaðkvöld, föstudagskvöld.

Þar með verða allir helstu hálendisvegir orðnir færir, Fjallabaksleið syðri opnaðist í dag, en áður var búið að opna Kjalveg, Kaldadal, Öskjuveg og Fjallabaksleið nyrðri. Gæsavatnaleið og Dyngjufjallaleið eru hins vegar ófærar og óvíst hvort þær opnast í sumar en þar er sagt mikið fannfergi.

Sjá má ástand fjallvega á hálendiskorti Vegagerðarinnar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×