Innlent

Einboðið að Lára sæi um málaferli Más

Heimir Már Pétursson skrifar
Ríkisendurskoðun segir einboðið að bankaráð Seðlabankans og einkum formaður þess væru í forsvari fyrir bankann í málarekstri bankans og seðlabankastjóra vegna launakjara hans. Verklagsreglur varðandi fjárhagslegar ákvarðanir bankaráðsins skorti hins vegar.

Núverandi Bankaráð Seðlabankans bað Ríkisendurskoðun að skoða aðkomu þáverandi formanns bankaráðs að greiðslum bankans á lögmannskostnaði Más Guðmundssonar í málaferlum gegn bankanum vegna launakjara hans. Ríkisendurskoðun tekur undir þau sjónarmið að Már hefði mátt búast við að launakjör hans tækju ekki breytingum miðað við ráðningarkjör hans en eftir að kjararáð lækkaði engu að síður laun hans hafi ríkt réttaróvissa í málinu sem taka þurfti á.

Í lögfræðiáliti sem Lára V. Júlíusdóttir formaður bankaráðs óskaði eftir á vormánuðum 2010 kemur fram að ekki sé hægt að breyta launakjörum bankastjórans á uppsagnarfresti sem var skipunartími Más Guðmundssonar, eða fimm ár. Stjórnendur Seðlabankans töldu því rétt að fá skorið úr um málið fyrir dómi.

Lára tók þá ákvörðun að Seðlabankinn greiddi málskostnað Más Guðmundssonar, enda var það álit þáverandi bankaráðs að það væri ekki einungis mikilvægt fyrir Má að niðurstaða fengist, heldur einnig fyrir Seðlabankann sjálfan. Allir starfsmenn bankans urðu vanhæfir í málinu þar sem kjör flestra yfirmanna miðast við laun seðlabankastjóra.

Í niðurlagi skýrslu Ríkisendurskoðunar segir:

„Því var einboðið að bankaráðið og þá einkum, formaður þess hlyti að vera í forsvari fyrir bankann að því er málareksturinn varðaði."

Og síðar segir:

„Formaðurinn hafði haldið á málum er lutu að starfskjörum forvera Más auk þess sem hann er hæstaréttarlögmaður að atvinnu. Því lá beinast við að verkefnið væri á höndum hans."

Lára segist ekki líta á svör Ríkisendurskoðunar sem ávirðingu á hana.

„Nei, ég vil alls ekki líta svo á. Það var þarna ákveðið tómarúm. Það var óljóst hvernig ætti að bregðast við, það var brugðist við,“ segir Lára. Vissulega hefði mátt kynna ákvörðun hennar um að greiða málskostnaðinn í bankaráðinu. Verklagsreglur hafi verið í smíðum en ekki tekist að klára þær áður en nýtt bankaráð tók við.

Það hafi hins vegar ekki verið fyrr en sex mánuðum eftir að hún hætti í bankaráði sem núverandi bankaráð hafi sett fram efasemdir um að rétt hafi verið brugðist við.

„Og niðurstaðan varð sú að leita með þær spurningar til Ríkisendurskoðunar og nú liggur skýrsla Ríkisendurskoðunar fyrir. Það er ekkert í þessu máli sem er óupplýst, óljóst eða eitthvað á þá leið að þarna hafi verið einhver óheiðarleiki einhvers staðar framkvæmdur. Bara alls ekki,“ segir Lára.

Hins vegar kemst Ríkisendurskoðun að þeirri niðurstöðu að verklagsreglur skorti í bankaráðinu þegar kemur að ákvörðunum um fjárútlát bankans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×