Innlent

1000 töskur á klukkustund

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ísland í dag kannaði í þætti gærkvöldsins hvað verður um farangurinn þegar hann er innritaður í Leifsstöð áður en haldið er til útlanda.

Við innritun farangurs er settur töskumiði á hverja tösku. Á hverjum töskumiða er strikamerki sem inniheldur allar nauðsynlegar upplýsingar um töskuna; til að mynda áfangastað, nafnfarþega, áfangastað, brottfarar tíma og svo framvegis.

Ef ferðalangar taka fram að í töskunni sé um eitthvað brothætt að ræða er hún þó tekin afsíðis og send aðra leið.

Eftir að miðanum hefur verið komið fyrir er taskan send af stað inn í sjálfvirkt farangurskerfi. Kerfið sendir þær áfram í gegnum flokkara sem svo sendir þær áfram í gegnum sprengjuleitarvélar en þær kanna hvort eitthvað grunsamlegt kunni að vera í farangrinum. Því næst heldur taskan áfram í gegnum annan flokkara sem svo sendir hana í réttar rennur þannig að farangurinn skili sér út í flugvélina.

Ef að þarf að skoða töskurnar betur eftir fyrstu skimun fara þær í gegnum aðra gegnumlýsingu og þaðan út í flokkara.

Ferlið allt saman tekur um þrjár til fjórar mínútur, frá því að taskan er innrituð þangað til að hún hefur farið í gegnum allt farangurskerfið. Ef álagið er mikið getur ferlið þó tekið lengri tíma.

Allt að þúsund töskur geta farið í gegnum farangurskerfið á klukkustund en nánar má fræðast um tæknina í myndbandinu hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×