Innlent

Lúsaplága herjar á lax í Noregi

Jakob Bjarnar skrifar
Menn hafa misst tökin á laxalúsinni sem hefur myndað ónæmi gegn öllum lyfjum. Á meðfylgjandi mynd getur að líta sundurétinn lax, eftir að hann hefur lent í laxalús. Sigurður Guðjónsson segir sjóbirtinginn í hættu.
Menn hafa misst tökin á laxalúsinni sem hefur myndað ónæmi gegn öllum lyfjum. Á meðfylgjandi mynd getur að líta sundurétinn lax, eftir að hann hefur lent í laxalús. Sigurður Guðjónsson segir sjóbirtinginn í hættu. hitra-froya.no
Laxalús herjar nú á laxaeldi í Noregi, og er óhætt að tala um plágu. Menn hafa þungar áhyggjur af stöðu mála, og þá ekki síst villtum stofnum sem er hætta búin og því að þessi plága gjósi upp hér á landi. Menn hafa lengi haft áhyggjur af laxalúsinni en svo hafa verið menn sem gefa lítið fyrir þá hættu sem geta verið henni samfara. En, Norðmenn eru nú í standandi vandræðum og þessi svæsna plága getur hæglega komið upp hér við strendur.

Menn að missa tökin

Norskir vefmiðlar birta skelfilegar myndir þar sem sjá má sundurétna laxa. Í Þrándheimi hafa fundist 50 til 100 lýs á hverjum laxi sem til rannsóknar hefur verið hjá norsku hafrannsóknarstofnunni. Mikil hætta er á að þessi faraldur smitist yfir í villta stofna og er talið að stofn sjóbirtings geti hrunið. Veiðimálastofnun fylgist vel með gangi mála í Noregi en forstjóri er Sigurður Guðjónsson.

„Þetta getur orðið svæsið og er vandamál víða um heim. Menn eru að missa tökin á þessu. Lyfin sem menn hafa notað við lúsinni eru hætt að virka, hún hefur myndað ónæmi. Þannig að þetta er snúið,“ segir Sigurður. „Laxalús hefur lengi verið vandamál í fiskeldi og ef það fer úr böndunum verður smit á nálægum villtum stofnum mikið.“

Sjóbirtingurinn útsettur fyrir smiti

Sigurður segir hætt við því að þar sem mikið laxeldi er geti gosið upp laxalúsafaraldur. Og þess vegna hér, sem annars staðar. Og menn verði að fylgjast vel með laxeldi í sjókvíum. En fátt er til ráða.

„Það verður að reyna að halda lúsinni niðri í eldinu og það er best gert með því að hvíla svæðin reglulega svo lúsin nái sér ekki á strik.“

Flestir veiðimenn þekkja laxalús á nýgegnum laxi, en 50 til 100 kvikindi á einum laxi er mikið?

„Jú, það er farið að valda fiski verulegum skaða og náttúrlega seyðum; þau geta hæglega drepist við mikið smit.“

Og, sjóbirtingur er í stórhættu. „Það sem gerir sjóbirtinginn sérstaklega útsettan er að hann fer að sumarlagi með ströndinni, þá inná og í kringum fiskeldisvæði, og verður þar af leiðandi fyrir miklu smiti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×