Innlent

Sluppu þrátt fyrir sprengingar á neðri hæðinni

Atli Ísleifsson skrifar
Guðmundur Pálmason, framkvæmdastjóri Promennt, segist gera ráð fyrir að starfsemi fari á fullt eftir sumarfrí.
Guðmundur Pálmason, framkvæmdastjóri Promennt, segist gera ráð fyrir að starfsemi fari á fullt eftir sumarfrí. Vísir/Andri Marínó
 „Það brann fyrir neðan okkur. Það brann fyrir aftan okkur, en við sluppum að mestu leyti,“ segir Guðmundur Pálmason, framkvæmdastjóri Promennt, sem er til húsa á annarri og þriðju hæð í Skeifunni 11b, sama húsi og Rekstrarland sem fór mjög illa í brunanum í gær. Miklar sprengingar urðu í húsnæði Rekstrarlands.

„Eftir að við fengum að koma inn í húsnæðið okkar og skoða þá lítur þetta allt betur út. Við erum með margar kennslustofur og þar af eru tvær eða þrjár sem eru illa farnar. Allur miðlægur búnaður virðist hins vegar hafa sloppið. Það eru einhverjar vatnsskemmdir á gólfi og svo þurfti að rjúfa þakið hérna á þriðju hæðinni til að dæla niður. Það þarf því að skipta um gólfefni.“

Starfsemi Promennt er í algeru lágmarki yfir sumartímann en Guðmundur segist eiga von á að geta haldið starfseminni áfram um miðjan ágúst. „Við vorum að klára að meta það með tryggingafélaginu og sjáum ekkert því til fyrirstöðu að við verðum hér á fullu þegar skóli hefst í lok ágúst.“

Guðmundur segist gríðarlega þakklátur lögreglu og slökkviliði fyrir að hafa náð að bjarga framhúsinu. „Hitt stóð allt í ljósum logum. Þeir einbeittu sér því að bjarga framhúsinu og það virðist hafa tekist ótrúlega vel hjá þeim. Þeir náðu að bjarga því sem bjarga varð. Það starf ásamt utanaðkomandi þáttum eins og veðri og vindátt, gerir það að verkum að við náum að hefja fulla starfsemi á ný í haust.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×