Fótbolti

Kosta Ríka skellti Ítalíu og sendi England heim á leið

Ruiz kemur hérna Kosta Ríka yfir.
Ruiz kemur hérna Kosta Ríka yfir. Vísir/afp
Kosta Ríka er komið í 16-liða úrslit á HM og England er á leiðinni heim. Það varð ljóst eftir að Kosta Ríka gerði sér lítið fyrir og skellti Ítalíu, 1-0. Liðið er þar með búið að vinna báða leiki sína í keppninni.

Þetta þýðir að Ítalía og Úrúgvæ munu spila hreinan úrslitaleik um hvort liðið fer áfram með Kosta Ríka í 16-liða úrslitin.

Mario Balotelli fékk bestu færi Ítala í fyrri hálfleiknum en náði ekki að nýta þau. Kosta Ríka menn héldu áfram að koma á óvart með sprækum leik og ógnuðu heldur heldur betur.

Þeir áttu svo að fá vítaspyrnu skömmu fyrir leikhlé en dómarinn hafði ekki kjark í að flauta víti.

Réttlætinu var svo fullnægt skömmu síðar þegar Bryan Ruiz stangaði boltann í netið. Marklínutækni þurfti til að sanna að boltinn væri fyrir innan línuna og það reyndist rétt.

Þeir sem héldu að Ítalía myndi valta yfir Kosta Ríka í síðari hálfleik höfðu rangt fyrir sér. Baráttuglaðir og beittir Kosta Ríka-menn gáfu nákvæmlega engin færi á sér og Ítalir voru ráðalausir.

Kosta Ríka fagnaði sigrinum innilega en ekkert lið hefur komið eins skemmtilega á óvart í keppninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×