Erlent

Pútín styður friðaráætlun Porosjenkó

vísir/afp
Vladimir Pútín Rússlandsforseti styður friðaráætlun Petrós Porosjenkós forseta Úkraínu. Stjórnvöld í Kænugarði og aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússum í austurhluta landsins þurfi hins vegar að hefja samningaviðræður svo vopnahlé haldi.

Pútín Rússlandsforseti sendi frá sér tilkynningu í gærkvöldi þar sem hann greindi frá því að stjórn hans væri hliðholl friðaráætlunum Petrós Porosjenkós. Þrátt fyrir að Porosjenkó hafi lýst yfir vopnahléi á föstudag þá hafa átök átt sér stað milli aðskilnaðarsinna og herliðs stjórnvalda yfir helgina. Aðskilnaðarsinnar segja að Úkraínski herinn virði vopnahléið að vettugi. Sex landamæraverðir hafa særst í átökunum.

Pútín segir að friðaráætlun Porosjenkó í austurhluta Úkraínu muni aðeins ganga upp ef raunverulegar viðræður fari fram við aðskilnaðarsinna og að stjórnvöld í Kænugarði slaki á kröfum sínum. Áætlun Porosjenkó felur meðal annars í sér afvopnun í austurhluta Úkraínu, sakaruppgjöf aðskilnarsinna og að aukin völd verði færð til héraða í austurhluta landsins.

Bandaríkjastjórn tilkynnti á föstudag að nöfn sjö leiðtoga aðskilnarsinna væru nú komin á svartan lista og að eignir þeirra verði frystar. Bandarískum fyrirtækjum verður jafnframt bannað að eiga viðskipti við leiðtoganna.

Bandaríkjastjórn segir að Rússar útvegi aðskilnaðarsinnum vopn og leggi þeim til skriðdreka. Jafnframt telur Bandaríkjastjórn að Rússar byggi upp herlið sitt á landamærum Úkraínu. Stjórnvöld í Moskvu hafna ásökunum Bandaríkjamanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×