Innlent

Mesti fjöldi barna í Kvennaathvarfinu síðan 1998

Randver Kári Randversson skrifar
Vísir/Getty
Alls dvöldu 222 konur og börn í Kvennaathvarfinu árið 2013, en um miðjan nóvember var athvarfið búið að hýsa fleiri en allt árið þar á undan. Þetta kemur fram í ársskýrslu Kvennaathvarfsins sem birt var í dag.

Á síðasta ári dvöldu 125 konur og 97 börn í Kvennaathvarfinu í allt frá einum degi og upp í 183 daga . Meðaldvöl kvenna varði í 17 daga en það er 3 dögum styttri meðaldvöl en árið á undan. Að jafnaði dvelja konur með börn lengur en barnlausar konur og konur af erlendum uppruna lengur en íslenskar konur. Börn dvöldu í athvarfinu í að meðaltali 21 dag. Að meðaltali dvöldu 6 konur og 5 börn í athvarfinu á degi hverjum en fjöldi dreifðist mjög misjafnlega yfir ári.

Í fyrra komu 97 börn til dvalar með mæðrum sínum í Kvennaathvarfinu, 49 strákar og 48 stelpur. Þetta er mesti fjöldi barna sem dvalið hefur í Kvennaathvarfinu síðan árið 1998. 37 af börnunum komu með íslenskri móður en 60 með móður af erlendum uppruna. Yngsta barnið var nokkurra vikna gamalt en það elsta 16 ára.

Í skýrslunni kemur fram að reynt er að auðvelda börnum komu og dvöl í Kvennaathvarfi enda eru þau ekki síður í kreppu en mæðurnar. Þau upplifi oft tilfinningar eins og ótta, varnarleysi, einangrun, sjálfsásökun, skömm og ótímabæra ábyrgð. Stefnt sé að því að barnið eigi góðar stundir í athvarfinu og leggja þar margir hönd á plóginn.

Árið 2013 voru skráðar 125 komur í dvöl í Kvennaathvarfinu og 583 í viðtöl, alls 708 komur. Komum fækkaði um rúmlega 40 frá árinu á undan




Fleiri fréttir

Sjá meira


×