Fótbolti

Gylfi: Gríðarleg pressa á leikmönnum enska landsliðsins

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Gylfi í baráttunni við Ivan Rakitic, leikmann Króatíu.
Gylfi í baráttunni við Ivan Rakitic, leikmann Króatíu. Vísir/Getty
Gylfi Þór Sigurðsson bjóst við meiru frá enska landsliðinu á Heimsmeistaramótinu þrátt fyrir að liðið sé í ákveðnum kynslóðarskiptum.

Gylfi var í viðtali í Bítinu á Bylgjunni fyrr í dag þar sem farið var yfir víðan völl. Slök frammistaða enska liðsins á mótinu sem datt úr leik í riðlakeppninni kom Gylfa á óvart.

„Auðvitað á landslið eins og England að komast upp úr þessum riðli. Það eru ákveðin kynslóðarskipti í gangi og margir yngri leikmenn fóru með en hópurinn var nægilega sterkur. Þótt þetta sé ekki jafn gott lið og England hefur boðið upp á oft áður var liðið sterkt og hefðin hefði átt að bera þá í 16-liða úrslitin.“

„Hefur verið dræmur árangur hjá liðinu undanfarna áratugi sem eykur pressuna á leikmönnum liðsins. Það er sett gríðarlega mikil pressa á leikmenn og það er mikið skrifað um þá. Þegar litið er á mótherjana eru hinsvegar margar þjóðir með betri og tæknilegri leikmenn,“ sagði Gylfi sem útilokaði ekki að Ísland kæmist á stórmót á næstu árum.

„Vonandi komumst við á stórmót, við erum ekki langt frá því. Við lentum í erfiðum riðli í undankeppni Evrópumótsins og það verður erfitt en það komast tvö lið beint upp og eitt fer í umspil, vonandi verðum við í baráttunni um þessi sæti. Það eru margir ungir og efnilegir leikmenn á Íslandi sem geta hjálpað til og er framtíðin björt fyrir íslenska landsliðið að mínu mati,“ sagði Gylfi brattur.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×