Innlent

40 manna áhöfn Brimness RE endurráðin

Svavar Hávarðsson skrifar
Stærsti og nýjasti frystitogari landsmanna mun halda áfram veiðum á Íslandsmiðum, með sinni fyrri áhöfn
Stærsti og nýjasti frystitogari landsmanna mun halda áfram veiðum á Íslandsmiðum, með sinni fyrri áhöfn Fréttablaðið/Anton
Fjörutíu manna áhöfn frystitogarans Brimness RE 27, sem er flaggskip útgerðarfyrirtækisins Brims hf., hefur verið endurráðin. Skipið mun halda áfram veiðum á Íslandsmiðum með sama hætti og var, og hætt hefur verið við að leita verkefna fyrir skipið erlendis.

Þetta staðfestir Guðmundur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Brims, í viðtali við Fréttablaðið.

Guðmundur hefur útskýrt fækkun frystiskipa hérlendis með því að veiðigjaldið, eins og það var fyrir breytingu við þinglok í vor, hafi lagst mjög þungt á frystiskipaútgerðina. Aðferðir við að leggja á veiðigjaldið hafi verið kolrangar.

„Veiðigjöldin voru löguð til, þó þau séu ennþá röng,“ segir Guðmundur spurður um á hverju þessi ákvörðun hans byggist. „Ég er þá ekki að segja að ég sé á móti veiðigjöldum, eða að veiðigjöld séu endilega of há, heldur að þau eru röng. Það hefur verið blekkingarleikur í gangi, því gjöldin lögðust á fisktegundir og ekki miðað við afkomu veiða á viðkomandi tegund,“ segir Guðmundur og nefnir dæmi um að veiðigjald af karfa var 25% hærra en af þorski, sem er helmingi verðmeiri tegund.

Brimnesið RE skilaði 2,7 milljarða króna aflaverðmæti í fyrra. Laun og launatengd gjöld losuðu milljarð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×