Innlent

Ármann segir meirihlutaviðræður við Bjarta framtíð hefjast í dag

Randver Kári Randversson skrifar
Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, oddviti sjálfstæðismanna í Kópavogi. Vísir/Stefán
„Það var mat bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að hefja viðræður við Bjarta framtíð. Þetta er bara niðurstaða hópsins. Eftir að hafa fundað mikið í gær og farið yfir málin þá var það niðurstaða hópsins að ræða við Bjarta framtíð,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi.

Eins og greint er frá í Fréttablaðinu í dag og sagt hefur verið frá á Vísi höfðu sjálfstæðismenn í Kópavogi bæði haft samband við Bjarta framtíð og Framsóknarflokkinn um mögulegt meirihlutasamstarf í bænum.

Ármann segir mat bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst vera byggt á niðurstöðu kosninganna í Kópavogi. „Það má segja að það séu tveir flokkar sigurvegarar þessara kosninga og því kannski ekki óeðliegt að þeir tali saman.“

Ármann reiknar með því að eiginlegar meirihlutaviðræður hefjist í dag og er bjartsýnn á að flokkarnir nái saman. „Það er í sjálfu sér ekkert í stefnuskrám þessara flokka sem ætti að koma í veg fyrir það. En við erum bara að fara inn í þessar viðræður með bjartsýni að leiðarljósi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×