Innlent

Sjálfstæðisflokkur ræðir við Bjarta framtíð í Kópavogi

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
vísir/pjetur
Sjálfstæðisflokkurinn í Kópavogi hefur bæði haft samband við Bjarta framtíð og Framsóknarflokkinn um mögulegt meirihlutasamstarf í bænum.

Meirihluti sjálfstæðismanna og framsóknarmanna í Kópavogi hélt velli í kosningunum en innan Sjálfstæðisflokksins vilja menn skoða möguleika á samstarfi við aðra flokka en Framsóknarflokkinn.

Báðir flokkarnir bættu við sig fylgi í Kópavogi. Sjálfstæðisflokkurinn bætti við sig manni en fylgisaukning Framsóknarflokksins dugði þó ekki fyrir öðrum bæjarfulltrúa.

Ef þessir flokkar mynda meirihluta eru þeir með sex af ellefu bæjarfulltrúum í bæjarstjórn.

Birkir Jón Jónsson, Framsóknarflokki, ítrekaði þá afstöðu sína í samtali við Fréttablaðið í gær að hann væri tilbúinn í áframhaldandi samstarf með Sjálfstæðisflokki.

Björt framtíð fékk tvo bæjarfulltrúa kjörna í Kópavogi og ef flokkurinn myndaði meirihluta með Sjálfstæðisflokki ættu þessir flokkar sjö bæjarfulltrúa af ellefu.

Theodóra S. Þorsteinsdóttir leiddi lista Bjartrar framtíðar. Hún segir að margir í Kópavogi hafi verið orðnir þreyttir á þeirri pólitík sem hafi verið rekin í bænum undanfarin ár.



„Við boðuðum meiri sátt og meira samstarf og breytta orðræðu í bæjarstjórn. Þetta fékk hljómgrunn meðal kjósenda,“ segir Theodóra og bætir við að flokkurinn hafi verið heiðarlegur og einlægur í kosningabaráttunni.

Þriðji möguleikinn á meirihlutasamstarfi í Kópvogi er Samfylking, Framsóknarflokkur, Vinstri græn og Björt framtíð hann væri með sex af ellefu í bæjarstjórn. Afar ólíklegt þykir þó að slíkur meirihluti verði myndaður.

Samfylkingin tapaði manni og er nú með tvo í bæjarstjórn.



„Niðurstaðan er vonbrigði. Björt framtíð tók töluvert mikið fylgi frá okkur. Undir lok kosningabaráttunnar fóru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn í mikil yfirboð auk þess sem þeir auglýstu mikið,“ segir Pétur Hrafn Sigurðsson, en hann leiddi lista Samfylkingarinnar.

Næst besti flokkurinn þurrkaðist nánast út og tapaði sínum fulltrúa.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í meirihluta í 24 ár utan 16 mánaða tímabils á síðast kjörtímabili en þá mynduðu Samfylking, Næst besti flokkurinn, listi Kópavogsbúa og Vinstri græn meirihluta. Sá meirihluti sprakk með hvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×