Innlent

Sáu stærstu rándýr jarðar á Skjálfanda

Kristján Már Unnarsson skrifar
Fjórir búrhvalir hafa synt um Skjálfandaflóa í dag en hvalaskoðunarbátur frá Húsavík kom fyrst auga á þá í hádeginu skammt suður af Flatey. Hvalaskoðunarbátar Húsvíkinga hafa síðan farið nokkrar ferðir til að sýna ferðamönnum þessar sjaldséðu skepnur.

Þessar myndir tók Már Höskuldsson, skipstjóri á Bjössa Sör hjá Norðursiglingu, en þar minnast menn þess ekki að hafa áður séð búrhvali á Skjálfanda eftir að hvalaskoðunarferðir hófust þar fyrir nítján árum. Búrhvalir sjást afar sjaldan svo nærri landi og halda sig venjulega djúpt úti á höfum.

Búrhvalur stingur sér á kaf.Mynd/Már Höskuldsson, Norðursiglingu.
Búrhvalir eru stærstu rándýr jarðar, geta orðið 15-20 metra langir og yfir 50 tonn að þyngd. Þeir eru tannhvalir og verða tennur þeirra yfir tíu sentímetra langar. Kantað höfuðlag er helsta sérkenni búrhvala.

Búrhvalir geta orðið 15-20 metra langir.Mynd/Már Höskuldsson, Norðursiglingu.
Hjá Norðursiglingu segjast menn raunar hafa séð óvenju margar hvalategundir á undanförnum dögum, þar á meðal steypireyði, hnúfubaka, hrefnur, háhyrninga, höfrunga og hnísur, - og núna einnig búrhvali.

Starfsmenn Norðursiglingar minnast þess ekki að hafa séð búrhvali áður í hvalaskoðunarferðum á Skjálfandaflóa.Mynd/Már Höskuldsson, Norðursiglingu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×