Innlent

Sjálfstæðisflokkur og Björt framtíð hefja formlegar viðræður

Stefán Árni Pálsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar í Hafnarfirði hafa ákveðið að hefja formlegar viðræður um meirihlutasamstarf í bæjarstjórn.

Vinna er hafin að mótun sameiginlegrar stefnu um málefni og verklag með áherslu á víðtækt samstarf allra kjörinna fulltrúa í bæjarstjórn.

Rósa Guðbjartsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna í Hafnarfirði, staðfesti í samtali við fréttastofu í morgun að flokkarnir tveir væru að tala saman en formlegar viðræður væru þó ekki hafnar.

Flokkarnir eru samanlagt með sjö bæjarfulltrúa af ellefu. Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar, hefur viðrað þá hugmynd að mynduð verði einhverskonar þjóðstjórn í bæjarfélaginu með samstarfi allra flokka sem náðu inn bæjarfulltrúa.

Rósa sagði í samtali við fréttastofu að sú hugmynd hefði ekki verið slegin útaf borðinu.

Meirihlutaviðræðum bjartrar framtíðar og og Sjálfstæðisflokks í Kópavogi verður framhaldið í dag. Theódóra Þorsteinsdóttir, oddviti bjartrar framtíðar sagði í samtali við fréttastofu í morgun, að það væri góður gangur í viðræðum og gerir ráð fyrir því að flokkarnir ræði skiptingu embætta á morgun.

Nú þegar liggur fyrir að Björt framtíð gerir ekki kröfu um að fá bæjarstjórastólinn. Theódóra á von á því að viðræðum ljúki um næstu helgi.

Oddvitar Samfylkingar, Vinstri grænna, Bjartar framtíðar og Pírata í Reykjavík ætla einnig að funda í dag.

Dagur B. Eggertsson, oddviti Samfylkingarinnar, hefur sagt í fjölmiðlum að markmiðið sé að ljúka viðræðum í lok næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×