Innlent

Íslendingar ræsa út slökkviliðið í Osló vegna rúnstykkis

Bjarki Ármannsson skrifar
Slökkviliðið í Osló brýndi fyrir starfsmönnum Ístaks að varlega þarf að fara með ristavélar.
Slökkviliðið í Osló brýndi fyrir starfsmönnum Ístaks að varlega þarf að fara með ristavélar. Vísir/AFP
Slökkviliðið í Osló var ræst út fyrr í dag eftir að starfsmaður Ístaks reyndi að rista sér rúnstykki á skrifstofu fyrirtækisins.

„Það kom bara pínu reykur og aðallega lykt,“ segir Guðmundur Ármann Böðvarsson, starfsmaður Ístaks í Noregi.  „En þeir komu á svona alvöru slökkviliðsbíl.“

Allir höfðu yfirgefið skrifstofubygginguna á Ráðhúsgötu þegar slökkviliðið mætti á staðinn, nema hinir íslensku starfsmenn Ístaks.

„Viðvörunarbjöllur fóru í gang og við vissum náttúrulega að það væri enginn eldur,“ segir Guðmundur. Hann segir Íslendingana á skrifstofunni hafa velt því fyrir sér við hvern ætti að tala til að koma í veg fyrir að slökkviliðið gerði sér ferð á staðinn.

„En við vissum eiginlega ekkert við hvern við ættum að tala, þannig við vorum bara þarna að aulast og reyna að losa lyktina í burtu þegar slökkviliðið kom.“

Hann játar að þeir hafi verið nokkuð skömmustulegir þegar norsku slökkviliðsmennina bar að garði.

„Þeir voru ekkert brjálaðir. Þetta hefur ábyggilega gerst áður.“

En hvers vegna var verið að setja rúnstykki í ristavél?

„Ég veit það bara ekki,“ viðurkennir Guðmundur. „Það hefur verið orðið gamalt eða eitthvað.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×