Innlent

„Allt stefnir í rétta átt“

Hjörtur Hjartarson skrifar
„Allir helstu mælikvarðar á árangur stjórnvalda eru í rétta átt," segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra nú þegar fyrsta ár nýrrar ríkisstjórnar er senn að baki. Hann telur að þegar almenningur fari að skynja betur þennan góða árangur ríkisstjórnarinnar, muni stuðningur við hana aukast.

Mikil ánægja ríkir á meðal framsóknarmanna, og hjá fleirum auðvitað líka, nú þegar kosningaloforðið um niðurfærslu verðtryggða húsnæðislána hefur verið efnt. Þær aðgerðir, sem og önnur verk ríkisstjórnarinna hafa þó sætt gagnrýni, bæði á meðal almennings og hjá stjórnarandstöðunni. Forsætisráðherrann er engu að síður ánægður með það sem komið hefur verið í verk á fyrstu 12 mánuðunum.

„Ég er auðvitað bara gríðarlega ánægður þegar maður lítur yfir þetta ár. Við erum búin að ná að klára þessi stóru mál og allir þessir helstu mælikvarðar á árangur stjórnvalda eru mjög í rétta átt. Hagvöxtur búinn að taka kipp, það stefnir í að kjarabætur verði þær mestu í Evrópu fyrir þetta ár, þ.e.a.s kaupmáttaraukningin, verðbólga hefur haldist lág að undanförnu, atvinnuleysi fer minnkandi og fjárfesting er byrjuð að aukast. Þannig að þetta er allt í rétta átt og ástæða til að vera bjartsýnn, nú þegar sumarið er komið,“ segir Sigmundur Davíð.

Stuðningur almennings við ríkisstjórnarflokkana er 31 prósent samkvæmt könnun frá 5.maí en var 51 prósent við síðustu kosningar.
Engu að síður sýna kannanir að stuðningur við ríkisstjórnarinna er ekki nema 31 prósent en var um 51 prósent í kosningunum í fyrra.

„Það í sjálfu sér ekki alveg óvænt því þegar menn eru að fara af stað við að breyta hlutunum og bæta, þá verða menn yfirleitt fyrir ákveðnu mótlæti í upphafi. Það er bara það sem við gerðum ráð fyrir. Það er ekki fyrr en fólk fer að skynja breytinguna á eigin skinni að það fer að láta það í ljós í stuðningi við flokka. Ég held að fólk sé byrjað að skynja þessa breytingu núna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×