Innlent

Dómurinn skilorðsbundinn vegna tafa á málsmeðferð

"Þessi biðtími er fólki gífurlega erfiður og það er svona eins og klukkan hálfpartinn stoppi í lífi fólks og því finnst það varla geta haldið áfram á meðan biðin stendur yfir.“
"Þessi biðtími er fólki gífurlega erfiður og það er svona eins og klukkan hálfpartinn stoppi í lífi fólks og því finnst það varla geta haldið áfram á meðan biðin stendur yfir.“ vísir/daníel
Refsing manns sem var dæmdur í tæplega þriggja ára fangelsi fyrir að níðast á þremur börnum og gefa þeim eiturlyf í Héraðsdómi Reykjaness var skilorðsbundinn vegna tafa á málsmeðferð. Nærri því fjögur ár liðu frá því að maðurinn var kærður þar til dómur féll í málinu. Hann játaði fimm af sjö ákæruliðum.

Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri sagði í fréttum RÚV í gær að mistök lögreglu hafi orðið til þess að málsmeðferðin dróst jafnmikið og raun ber vitni. Hann segir málið algjöra undantekningu enda séu kynferðisbrot gegn börnum í forgangi umfram öll önnur mál.

Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, er sammála Jóni og segir óvanalegt að skjólstæðingar samtakanna þurfi að bíða svo lengi. Engu að síður sé biðtíminn enn of langur í málum sem fá rétta meðferð.

„Já það segir sig auðvitað sjálft að þessi biðtími er fólki gífurlega erfiður og það er svona eins og klukkan hálfpartinn stoppi í lífi fólks og því finnst það varla geta haldið áfram á meðan biðin stendur yfir. Það er auðvitað bara út úr öllum kortum og það er ekki hægt að finna neina viðunandi skýringu við því,“ segir Guðrún.

Guðrún segir jafnframt að stjórnvöld verði að bregðast við því að kærum vegna kynferðisbrotamála er að fjölga. Hætta sé á að flöskuháls myndist vegna fjölda slíkra mála.

„Við verðum auðvitað að bregðast við því. Við getum aldrei notað sem afsökun að það sé svo mikið að gera hjá lögreglu að það sé ekki hægt að sinna þeim málum sem upp koma þróunin er, málunum er að fjölga og við verðum að vera í stakk búin til þess að mæta því. “

Guðrún telur ekki að þolendur kynferðisofbeldis muni veigra sér við því að leggja fram kæru þó úrlausn mála þeirra geti tekið langan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×