Innlent

Frétti fyrst af dómnum frá þeim sem braut á henni kynferðislega

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Dóttir konunnar sem Vísir ræddi voru sem fyrr segir dæmdar 300 þúsund krónur í miskabætur þrátt fyrir að móðirin hafi fyrir hönd dóttur sinnar farið fram á 1,3 milljónir í bætur.
Dóttir konunnar sem Vísir ræddi voru sem fyrr segir dæmdar 300 þúsund krónur í miskabætur þrátt fyrir að móðirin hafi fyrir hönd dóttur sinnar farið fram á 1,3 milljónir í bætur.
Móðir stúlku sem voru dæmdar 300 þúsund krónur í miskabætur vegna kynferðisbrots sem stúlkan varð fyrir þegar hún var 14 ára er ekki sátt við hversu langan tíma málið var í meðferð hjá lögreglu né hversu litlar upplýsingar þær fengu um málið. Bæði á meðan á málsmeðferð hjá lögreglu stóð og eftir að dómur féll. En tæp fjögur ár liðu frá því málið var kært og þar til dómur féll.

Móðirin sem Vísir ræddi við nú í kvöld kærði Birki Má Ingimarsson fyrir hönd dóttur sinnar haustið 2010. Hann var dæmdur í tveggja ára og níu mánaða fangelsi í vikunni fyrir kynferðisbrot gegn þremur börnum. Dómurinn var skilorðsbundinn vegna þeirra tafa sem urðu á málinu hjá lögreglu. Í dómnum segir að rannsókn hafi lokið rúmu ári eftir að Birkir Már var kærður. Hins vegar hafi ríkissaksóknari ekki fengið málið fyrr en sjö mánuðum eftir að rannsókn lauk. Ákæra í málinu var svo gefin út fyrir síðustu jól.

Íris Stefánsdóttir, móðir annarrar stúlku sem maðurinn var dæmdur fyrir að níðast á, sagðist í samtali við RÚV ítrekað hafa haft samband við lögreglu og saksóknara til að leita svara vegna tafa á rannsókn málsins.

Meðal þess sem Birkir Már var einnig dæmdur fyrir var að gefa 14 ára strák smjörsýru svo drengnum var ekki sjálfrátt, „farið með hann inn í svefnherbergi sitt, klætt hann úr fötum, strokið og nuddað á honum kynfærin, látið hann gera það sama við sig og nuddað kynfærum sínum og líkama upp við líkama hans.“

Heyrði aldrei í neinum vegna málsins

Dóttir konunnar sem Vísir ræddi voru sem fyrr segir dæmdar 300 þúsund krónur í miskabætur þrátt fyrir að móðirin hafi fyrir hönd dóttur sinnar farið fram á 1,3 milljónir í bætur.

Stúlkan var 14 ára þegar Birkir Már hafði samræði við hana. Birkir játaði sök fyrir dómi  og játaði jafnframt að vera kunnugt um að stúlkan hefði verið aðeins 14 ára.

Móðirin segist aldrei hafa heyrt í neinum vegna málsins frá því að hún kærði það fyrir bráðum fjórum árum síðan. Í síðustu viku hafi dóttir hennar aftur á móti fengið skilaboð í gegnum Facebook frá Birki Má þar sem hann spurði hana hvort hún hafði frétt af dómnum. En það hafði stúlkan ekki gert. Hún hafi svo frétt frá vinkonu sinni að sér hefðu verið dæmdar bætur.

Móðirin fletti þá dómnum upp og í kjölfarið fór hún að eigin sögn á fullt við að komast til botns í málinu. Hún hafi ekki verið viss um hvort að barnið A í dóminum væri sitt barn. Hún náði loks í saksóknarann og eftir það heyrði hún fyrst frá réttargæslumanni dóttur sinnar. Sú sagðist hafa reynt að ná í þær en ekki verið með rétt númer. „Við búum á Íslandi, þetta eru engin geimvísindi. Hér er þjóðskrá og hægt að hafa samband við fólk í gegnum Facebook, þetta er engin afsökun,“ segir móðirin.

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar.Vísir/Anton Brink
Ósáttar við skilorðsbundinn dóm

Hún kveðst ekki heldur sátt við það að Birkir Már þurfi ekkert að sitja inni. Hún telur að öðruvísi hefði verið tekið á málunum ef um hefði verið að ræða börn sem ekki hefðu vilst af vegi eins og þau börn sem Birkir Már er dæmdur fyrir að brjóta gegn.

„Það þarf enginn að segja mér að ef þetta hefði verið ung pía í Breiðagerðisskóla eða Hagaskóla að það hefði ekki verið tekið öðruvísi á málum,“ segir hún.

Birkir hafi selt og jafnvel gefið börnunum sem hann misnotaði fíkniefni. „Hann misnotaði skerta sjálfsmynd þeirra,“ segir hún.

Móðirin telur að auðveldara væri að sætta sig við þessar lágu bætur ef Birkir Már þyrfti að sitja eitthvað inni. En hann er frjáls ferða sinna og bæturnar sem hann þarf að greiða séu ekki háar. Dóttir hennar þurfi meira að segja að sækja þær til hans sjálf.

Hún segir dóttur sína á sama máli. „Henni finnst líka hafa verið brotið á sér með því að hafa ekki verið látin vita af neinu en fréttir svo af dómnum frá honum sjálfum og öðrum utanaðkomandi.“ 

Mistök hjá lögreglu

Friðrik Smári Björgvinsson, yfirmaður rannsóknardeildar lögreglunnar, sagði samtali við RÚV að það hefði engin áhrif hafa á rannsóknir mála hverjir brotaþolar eru. Hann vill ekki tjá sig um málið að öðru leyti. 

Jón H.B. Snorrason aðstoðarlögreglustjóri sagði í fréttum RÚV í gær að mistök lögreglu hafi orðið til þess að málsmeðferðin dróst jafnmikið og raun ber vitni. Hann segir málið algjöra undantekningu enda séu kynferðisbrot gegn börnum í forgangi umfram öll önnur mál.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×