Frá þessu greinir meðal annars BBC. Lögregla sagði á blaðamannafundi að Elliot Rodger hefði til viðbótar stungið þrjá menn til bana í íbúð sinni. Hann hóf síðar skothríð úr bíl sínum í hverfinu Isla Vista og réð tilviljun því hverjir urðu fyrir henni.
Rodger fannst látinn í bifreið sinni með skot í höfðinu. Lögregla segir allt benda til þess að hann hafi svipt sig lífi.
Nú er til rannsóknar óhugnanlegt myndband sem Rodger er talinn hafa gert og sett á Youtube. Í myndbandinu má sjá ungan mann sem kynnir sig undir nafninu Elliot Rodger og segist vera 22 ára. Segist hann hafa verið einmana síðustu átta ár og sé orðinn þreyttur á að vera sífellt hafnað af kvenfólki.
Rodger er yfirvegaður er hann segist ætla að verða öllum þeim sem verða á leið hans að bana. „Ég mun njóta þess að drepa ykkur öll. Þið munið loksins sjá að ég er ykkur æðri,“ segir hann.
„Ég verð guð miðað við ykkur. Þið verðið dýr. Þið eruð dýr og ég mun slátra ykkur eins og dýrum. Ég hata ykkur öll. Mannkynið er ógeðslegt, aumt og siðspillt.“
Myndbandið má sjá hér fyrir neðan.