Innlent

Ákæran gæti gert fólki erfiðara fyrir að sækja bætur

Hjörtur Hjartarson skrifar
Ríkissaksóknari gaf í síðustu viku út ákæru á hendur Landsspítalanum og hjúkrunarfræðingi á gjörgæsludeild fyrir manndráp af gáleysi.
Ríkissaksóknari gaf í síðustu viku út ákæru á hendur Landsspítalanum og hjúkrunarfræðingi á gjörgæsludeild fyrir manndráp af gáleysi. Vísir/Vilhelm

Lögmaður segir að nýleg ákæra á hendur hjúkrunarfræðingi geti leitt til þess að þolendur læknamistaka muni eiga erfitt verk fyrir höndum, ætli þeir sér að sækja bætur frá ríkinu.

Ríkissaksóknari gaf í síðustu viku út ákæru á hendur Landsspítalanum og hjúkrunarfræðingi á gjörgæsludeild fyrir manndráp af gáleysi. Ákvörðunin hefur verið gagnrýnd af heilbrigðisstarfsmönnum enda komi hún til með að hafa víðtæk áhrif. Halldór Halldórsson lögmaður hefur rekið mál fyrir fjölmarga einstaklinga sem freista þess að sækja rétt sinn vegna læknamistaka.

„Læknamistakamál er sá málaflokkur innan skaðabótaréttar þar sem það kann að reynast tjónþolum hvað erfiðast að sanna hina skaðabótaskyldu háttsemi og orsakatengsl milli hennar og tjónsins,“ segir Halldór. „Því þurfa tjónþolar, eðli málsins samkvæmt, að treysta talsvert á skráningu lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Þeir þurfa að treysta því að hún sé rétt og sannleikanum samkvæm.

Þó maður vilji ekki ætla neinum heilbrigðisstarfsmanni að breiða yfir mistök, þá gefur það auga leið að hugsanleg ákæra gæti dregið úr hvata til að greina nákvæmlega frá því ef eitthvað fer aflaga, til dæmis við aðgerð eða aðra meðhöndlun.“

Ólafur G. Skúlason, formaður félags íslenskra hjúkrunafræðinga sagði í viðtali við Fréttablaðið að hann óttaðist að ákæran leiddi til þess heilbrigðisstarfsmenn myndu í framtíðinni reyna að hylma yfir mistök sín af ótta við að vera dregin fyrir dóm.

„Þetta er bara mjög alvarlegt mál,“ segir Halldór. „Ef fagmenn á þessu sviði telja sjálfir að þetta sé hættan, þá eru meiri líkur á því að tjónþoli þurfi að hafa verulegar áhyggjur af því að skráning sjúkraskráa gæti verið eitthvað röng og mögulega fölsuð ef þess ber undir.

Ég hef verið með mál þar sem tjónþolar hafa kannski verið nýbúnir að ganga undir aðgerð og eru kannski ekki í þannig ástandi að geta greint nákvæmlega frá hvað gerist í aðgerðinni. Því þurfa þeir að treysta á að það sem kemur fram í sjúkraskrám sé sannleikanum samkvæmt. Þetta er grafalvarlegt mál að mínu mati.“


Tengdar fréttir

"Hún getur ekki verið ein ábyrg“

Landspítalinn og hjúkrunarfræðingur á gjörgæsludeild spítalans voru í dag ákærð fyrir manndráp af gáleysi vegna atviks sem kom upp á spítalanum í október 2012, en ekkja mannsins sem lést segist ósátt við ákæruna. Framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítalanum segir íslenskt heilbrigðiskerfi standa á krossgötum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×