Innlent

„Fólk skammast sín fyrir fátæktina“

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
16 prósent barna á Íslandi eru í hættu á að búa við fátækt. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint.
16 prósent barna á Íslandi eru í hættu á að búa við fátækt. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar beint. VÍSIR/GVA
„Það kom á óvart hvað það er mikil þöggun í gangi,“ segir Sigríður Guðlaugsdóttir, verkefnisstjóri Barnaheilla á Íslandi. Barnaheill tóku viðtal við ungmenni sem hafa verið alin upp við fátækt hér á landi.

Evrópuhópur Barnaheilla gaf nýverið út skýrslu um fátækt í Evrópu. Þar segir að líkt og annars staðar hafi fátækt aukist hér á landi. Hættan á fátækt og félagslegri einangrun barna hafi aukist um 2,8 prósent frá árinu 2008 til ársins 2012.

„Þetta þýðir að um 16 prósent barna á Íslandi eru í þessum hópi.“

Það var í kjölfar skýrslunnar sem Barnaheill tók viðtöl við ungmennin. Erfiðlega gekk að fá fólk í viðtal að sögn Sigríðar. Fátæktinni fylgi skömm og bæði börn og foreldrar virðist leggja nokkuð á sig til þess að leyna ástandinu.

„Fólk skammast sín fyrir fátæktina og börnin verða meðvirk með foreldrunum og það er svo ofboðslega margt sem heldur þessu földu,“ segir Sigríður.

Hún segir mikilvægt að unnið sé með barnafátækt út frá réttindum barna en samkvæmt Barnasáttmálanum eigi öll börn rétt á lifa og þroskast og ekki má mismuna þeim vegna stöðu þeirra eða foreldra þeirra. Fátækt auki hættuna á félagslegri einangrun og því að börn njóti ekki þeirra réttinda sem þau eiga. Fátækt sé í raun brot á mannréttindum barna.

Börn þurfa að fá tækifæri til að brjótast út úr fátækt

Dagur barnsins er í dag og í tilefni dagsins boðuðu nemendur í 10. bekk í Austurbæjarskóla og Barnaheill til fundar í Austurbæjarskóla. Krakkarnir hafa í vetur unnið að verkefni þar sem þau skoða fátækt í nærumhverfi sínu. Upp úr verkefninu sömdu þau eigin texta við lagið Let it go úr teiknimyndinni Frozen og fengu tónlistarmennina Magnús Kjartansson og Jóhann Ásmundsson til að taka lagið upp í upptökuveri, en myndbandið má sjá hér fyrir neðan.

Í tilefni dagsins hvetur Barnaheill stjórnvöld til að forgangsraða í þágu barna. Hér á landi eigi 12 þúsund börn á hættu að búa við fátækt eða félagslega einangrun. Þær aðstæður komi í veg fyrir að börn njóti réttinda sinna og takmarka möguleika þeirra á að þroska hæfileika eða fá tækifæri til að öðlast þá færni og getu sem þarf til að brjótast út úr fátækt.

Barnaheill skora meðal annars á að stjórnvöld tryggi viðunandi framfærslu fyrir allar barnafjölskyldur. Tryggi gjaldfrjálsa gæðamenntun fyrir öll börn og styrki leikskólamenntun fyrir ung börn.

Stjórnvöld þurfi að huga að því minnka brottfall úr skólum með aðgerðum sem virka og tryggja aðgang allra barna að tómstundum, listum og skemmtunum. En einnig þurfi að marka stefnu um tómstundir. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×