Innlent

Irina Bokova hrósar Vigdísi Finnbogadóttur

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Irina Bokova og Gunnar Bragi Sveinsson.
Irina Bokova og Gunnar Bragi Sveinsson.
Irina Bokova, aðalframkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) hrósaði framlagi Vigdísar Finnbogadóttur til UNESCO á fundi með Gunnari Braga Sveinssyni í dag. Vigdís er velgjörðarsendiherra UNESCO fyrir tungumál og hefur um árabil gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir stofnunina.

Gunnar Bragi þakkaði Bokova fyrir stuðning hennar við Alþjóða tungumálamiðstöð Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands en stofnunin hlaut í nóvember 2011 samþykki til að starfa undir formerkjum UNESCO.

Á fundi þeirra í dag lagði Gunnar Bragi áherslu á mikilvægi menntunar í þróunarsamvinnu Íslands, einkum menntun kvenna og stúlkna. stúlkna. Hann sagði Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna gegna mikilvægu hlutverki í þróunarsamvinnunni, og vakti jafnframt athygli á árangursríku starfi Jarðhitaskólans, Sjávarútvegsskólans og Landgræðsluskólans.

Gunnar Bragi lagði einnig áherslu á mikilvægi þess að hagræða í starfsemi alþjóðastofnana og aðlaga þær að breyttum tímum, en Irina Bokova hefur undanfarin ár stjórnað miklu umbótaferli í UNESCO sem hófst í kjölfar heildarúttektar sem gerð var á starfsemi og rekstri stofnunarinnar 2010. Rætt var um mikilvægi tækninnar og áhrif samfélagsmiðla á öllum starfssviðum UNESCO.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×