Fótbolti

Prandelli: Enginn enskur kæmist í ítalska liðið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Prandelli veit að leikurinn 14. júní getur ráðið úrslitum
Prandelli veit að leikurinn 14. júní getur ráðið úrslitum vísir/getty
Cesare Prandelli knattspyrnustjóri ítalska landsliðsins í fótbolta er byrjaður sálfræðistríðið fyrir leik Ítalíu og Englands á heimsmeistaramótinu í Brasilíu 14. júní sem er fyrsti leikur liðanna í keppninni.

Prandelli segir að enginn leikmaður enska liðsins kæmist í ítalska hópinn væri ensku leikmennirnir ítalskir. Engu að síður gaf hann í skyn að hann gæti hugsað sér að þjálfa á Englandi eftir að hann hættir með ítalska landsliðið.

„England er með sterkt, mjög sterkt lið. (Roy) Hodgson hefur fundið mjög áhugaverða leikmenn. Sérstaklega þegar litið er á þá frá líkamlegu sjónarmiði. Þeir eru teknískir og sterkir,“ sagði Prandelli við Fox Sports sjónvarpsstöðina í Bandaríkjunum.

„Hvaða leikmenn tæki ég frá Englandi? Þeir eru með áhugaverða unga leikmenn sem enginn bjóst við að gætu sett mark sitt á ensku úrvalsdeildina fyrir ári síðan.

„En ég tæki engan fram yfir mína leikmenn. Við erum með gott lið líka,“ sagði þjálfari Ítalíu.

„Að fara erlendis heillar alla. Í hvert sinn sem ég tala við kollega mína sem vinna erlendis þá brosa þeir á hátt sem ég var aðeins búinn að gleyma.

„Þeir segja að þú getir notið einkalífsins í einrúmi á sama tíma og þú getur unnið við það sem þú vilt.

„Kannski er of mikil pressa á Ítalíu. Enska deildinni er mjög sterk og ástríðufull. Það fylgjast margir með henni og hún hefur mikil áhrif á fólk,“ sagði Prandelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×