Innlent

Forseti Alþingis sleit þingi með orðum Pollapönks

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Einar vitnaði í Pollapönkið í lokaorðum sínum.
Einar vitnaði í Pollapönkið í lokaorðum sínum.
„Lífið er of stutt fyrir skammsýni

Úr vegi skal nú rutt allri þröngsýni

Og…Verum öll samtaka þið verðið að meðtaka.“Svo mælti Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, við þingfrestun í kvöld og vitnaði hann þar í söngtexta Pollapönks við lagið Enga fordóma, framlag Íslendinga til Eurovision-keppninnar í ár.

Alþingi er komið í sumarfrí og voru mál afgreidd á færibandi í kvöld. Má þar nefna lög um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði, lög um lífsýnasöfn auk skuldaleiðréttingafrumvarpa ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var með 33 atkvæðum gegn 22.

Í lokaorðum sínum sagði Einar það vera dæmi um styrk Alþingis að þrátt fyrir ýmis ágreiningsmál takist jafnan að ná samkomulagi um hvernig meðferð slík mál skuli fái á Alþingi og hvernig þau skuli leidd til lykta.

„Óháð þessu atriði er það hins vegar staðreynd að flest þingmál eru hér afgreidd í góðri sátt líkt og almennt er veruleikinn í nágrannaþingum okkar. Það er lýsandi fyrir þessa stöðu að um margra áratuga skeið hafa um 75 prósent allra samþykkra lagafrumvarpa verið afgreidd í efnislegu samkomulagi,“ sagði Einar.

„Þegar við skyggnumst um gáttir nú við lyktir 143. löggjafarþingsins þá er því ljóst að yfirgnæfandi hluti mála - og þar með talin ýmis stór mál - eru afgreidd í pólitískri sátt. Það er sannarlega vel og lýsir styrk löggjafarsamkomunnar, hvað sem hver segir. Það er vonandi þannig að við höfum tileinkað okkur hvatningarorð Pollapönksins.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.