Innlent

Brottfallsnemar verða bótaþegar

Linda Blöndal skrifar
Þrjú þúsund ungmenni eru á framfærslustyrk sveitarfélaganna og veldur fjöldi ungra karla sem eru félagslega óvirkir og á bótum miklum áhyggjum innan félagsþjónustunnar. Þetta má lesa í skýrslu Rauða krossins sem nefnist “Hvar þrengir að?” sem kynnt var í gær. Atvinnuleysi meðal ungs fólks, 18 til 24 ára er 7,7 prósent á meðan meðal atvinnuleysi á landinu er 4,5 prósent. Atvinnuleysistölur segja þó ekki alla söguna því sumir hafa misst bótaréttinn.

Fjórir milljarðar í bætur

Í nýlegri skýrslu um menntamál sem unnin var fyrir Samband sveitarfélaganna á Höfuðborgarsvæðinu og nefnist „Samvinna skólastiga“ var fjallað um kostnaðinn sem hlýst af brottfalli nema úr framhaldsskólum. Skúli Helgason, verkefnisstjóri vinnuhópsins, segir að tengsl séu án efa á milli brotthvarfs úr framhaldsskólum og fjölda ungra karla sem er á framfærslu sveitarfélaga.

Kostnaðurinn sé mikill fyrir samfélagið og bendir á að fjórir milljarðar séu alls áætlaðir í framfærslustyrki hjá Reykjavíkurborg á þessu ári. Það sé allra hagur að sveitarfélög og ríkið vinni saman að því að minnka brottfall í skólum því þar með verði færri á framfærslu sveitarfélaganna. Byrðin er þung víða um land hjá sveitarfélögum vegna bágrar fjárhags– og félagslegrar stöðu ungs fólks og sér í lagi ungra manna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×