Innlent

Ölvun ungmenna og slys í miðborginni

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Tveir menn voru handteknir við veitingahús á Stórhöfða í nótt. Annar þeirra var handtekinn um þrjúleytið og er hann grunaður um líkamsárás. Maðurinn var vistaður í fangageymslu en sá sem fyrir árásinni leitaði aðstoðar á slysadeild.

Á fimmta tímanum var svo annar maður handtekinn. Hann var ölvaður og er grunaður um eignaspjöll. Maðurinn var vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls.

Í gærkvöldi var tilkynnt um slasaða konu á reiðvegi nærri Rauðhólum.  Konan mun hafa dottið af hestbaki og var hún flutt með sjúkrabifreið á Slysadeild til aðhlynningar.

Þá voru afskipti höfð af tíu ungmennum í bílastæðahúsi við Laugaveg. Ungmennin eru á aldrinum fjórtán til 21 árs og eru grunuð um neyslu  áfengis og fíkniefna. Forráðamenn yngstu ungmennanna komu á lögreglustöð og sóttu þau

Tilkynnt var um tvö slys á veitingastöðum í miðborginni, annað við Bankastræti en hitt við Laugaveg. Á staðnum við Bankastræti datt stúlka niður stiga og hlaut áverka á höfði. Sjúkrabifreið var send á staðinn. Á staðnum við Laugaveg datt kona og hlaut áverka á höfði. Var hún flutt á slysadeild.

Þá var tilkynnt um meðvitundarlausan mann á veitingahúsi í Hafnarfirði. Talið var að maðurinn hefði sprautað sig með ólyfjan og var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Að lokum voru þrjár bifreiðar stöðvaðar í Kópavogi og Breiðholti. Í tveimur tilfellum voru ökumenn grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Að auki ók annar þeirra sviptur ökuréttindum, en í Breiðholti var sá þriðji stöðvaður eftir að hann virti ekki stöðvunarskyldu. Hann er grunaður um ölvun við akstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×