Erlent

Sorg í Norður-Kóreu eftir að íbúðarhús hrundi

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
vísir/ap
Stórt íbúðarhús hrundi í Pyongyang, höfuðborg Norður-Kóreu, á þriðjudag og segja stjórnvöld þar í landi að fólk hafi látið lífið í hruninu. Fjöldi látinna hefur þó ekki verið gefinn upp en óvenjulegt þykir að stjórnvöld í Norður-Kóreu sendi frá sér yfirlýsingar um atburði á borð við þennan.

Húsið var á 23 hæðum og er talið að allt að 92 fjölskyldur hafi búið í húsinu, en það var enn í byggingu. Algengt er í Norður-Kóreu að fólk flytji inn í hús áður en byggingu þeirra er lokið.

Norðurkóreska ríkisútvarpið greinir frá því að húsið hafi verið illa byggt og að framkvæmdunum hafi verið illa stýrt. Þá eru borgarbúar sagðir vera í áfalli vegna slyssins en yfirvöld segjast munu hjálpa þeim sem núna eru heimilislausir og útvega þeim nýtt húsnæði.

Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, er sagður hafa vakað alla nóttina eftir að hafa fengið fregnir af atburðinum og hefur hann frestað öllum fyrirhuguðum embættisverkum sínum um óákveðinn tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×