Innlent

Sjálfræðissviptur einstaklingur án lögráðamanns í tíu ár

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Í fréttum Stöðvar 2 í gær var fjallað um minnisblað sem Geðhjálp sendi á Innanríkisráðuneytið í byrjun apríl. Þar kemur fram að vali og eftirliti með störfum lögráðamanna sjálfræðissviptra einstaklinga sé í miklum ólestri. 

Sýslumannsembætti fara fram á að lögráðamenn, sem eru í hlutverki fjárhaldsmanna, skili árlegri skýrslu um fjármál. Aftur á móti er ekki farið fram á að lögráðamenn annarra sjálfræðissviptra einstaklinga skili reglulega skýrslu um málefni þess sjálfræðissvipta. Að jafnaði virðist því ekkert eftirlit haft með þessum lögráðamönnum af hálfu sýslumannaembættanna.

Afleiðing af því getur verið að sjálfræðissvipt fólk endi án lögráðamanna, til dæmis við andlát eða vanrækslu.

Dæmi er um að sjálfræðissviptur einstaklingur til 28 ára hafi verið án lögráðamanns í 10 ár eftir að lögráðamaður hans lést, án þess að nokkur tæki eftir því. Þetta kom í ljós þegar læknir mannsins fór að grennslast fyrir um málið fyrir skömmu.

Halldóra Jónsdóttir, yfirlæknir á bráðageðdeild Landspítalans, segir fleiri dæmi um að læknar eigi í vandræðum með að hafa uppi á lögráðamönnum sjúklinga, en þeir þurfa oft að gefa samþykki fyrir lyfjagjöfum.

Halldóra segir að hægt væri að koma í veg fyrir að sjálfræðissvipt fólk verði utanveltu með bættu verklagi. Ekki er eru til neinar reglur um að einstaklingar sem sviptir eru sjálfræði þurfi að fara í reglulegt eftirlit, læknisskoðanir eða að lögráðamaður skili inn vottorðum um stöðu veikinda þess sjálfræðissvipta eða líðan hans. Einstaklingar sem eru án lögráðamanna, eða með lögráðamann sem sinnir starfi sínu illa, eiga því á hættu að týnast í kerfinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×