Innlent

Nýr samningur undirritaður um ferðaþjónustu við fatlaða

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Við undirritunina í dag
Við undirritunina í dag
Strætó bs. hefur gert samning við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um umsjón með ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

Skrifað var undir samninginn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag, en hann byggir á samkomulagi sveitarfélaganna um sameiginlega ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu. 



„Við erum hæstánægð með þennan samning,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó bs. „Með honum verður þjónustan við þennan hóp stóraukin og verður tengdari okkar starfsemi.“



Kópavogsbær verður ekki aðili að samningnum fyrst um sinn, sem tekur gildi um næstu áramót, vegna samnings sveitarfélagsins við akstursaðila sem sér um þjónustuna í dag.

Samningurinn sem undirritaður var í dag felur í sér hærri gæðakröfur um útbúnað bílana sem annast flutningana og styttri fyrirvara á pöntun. Akstur verður í boði á sama tíma og þjónusta strætisvagna en miðað er við að panta þurfi ferðir með tveggja tíma fyrirvara.

Smári Ólafsson, rekstrarstjóri ferðaþjónustu fatlaðs fólks, segir að nýr tölvubúnaður verði tekinn í gagnið fyrir þjónustuna sem geri notendum auðveldara að panta sér ferðir. 



„Með því getum við skipulagt ferðirnar betur og það næst betri nýting á bílana. Sjálfur aksturinn verður boðinn út og mun Strætó sjá um það útboð, ásamt því að kenna verktökum á hugbúnaðinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×