Erlent

Mannskæð átök í Úkraínu

Bjarki Ármannsson skrifar
Vopnaðir aðgerðasinnar undirbúa sig fyrir átök við lögreglu í dag.
Vopnaðir aðgerðasinnar undirbúa sig fyrir átök við lögreglu í dag. Vísir/AFP
Hleypt hefur verið af skotum í austanverðri Úkraínu í dag í átökum lögreglu og mótmælasinna sem hliðhollir eru Rússum. Barist er um bæinn Slóvíansk en eftir að mótmælendur hertóku hann í gær hratt Úkraínska ríkisstjórnin af stað „aðgerðum gegn hryðjuverkum.“

BBC segir að mannfall hafi þegar átt sér stað hjá bæði lögreglu og aðgerðarsinnum. Líkt og fram hefur komið hafa ráðherrar í ríkisstjórn Úkraínu ásakað yfirvöld í Rússlandi um að kynda undir átök í landinu sem stigmagnast hafa undanfarna daga. Rússar neita því að hafa nokkuð með óeirðirnar að gera.

Í gær hertóku grímuklæddir og vopnaðir aðgerðasinnar ýmsar opinberar byggingar í austurhluta Úkraínu, meðal annars lögreglustöðvar. Þá sagði lögreglustjórinn í borginni Donetsk af sér eftir fjölmenn mótmæli fyrir utan stöð hans. Fjölmargir íbúa á svæðinu hafa rússnesku að móðurmáli og krefjast þess að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort svæðið eigi að sameinast Rússlandi, líkt og gert var á Krímskaganum nú nýverið.

Joe Biden, varaforseti Bandaríkjanna, tilkynnti í gær að hann hyggðist heimsækja Kænugarð í þarnæstu viku en Bandaríkin hafa lýst yfir stuðningi við starfandi ríkisstjórn Úkraínu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×